Kristín Huld Sigurðardóttir
Kristín Huld Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Huld Sigurðardóttir og Agnes Stefánsdóttir skrifa um fornleifar og jarðstrengi: "...í jörðu leynast víða fornleifar sem hætta er á að skemmist við lagningu jarðstrengja, sé ekki vel að gætt."
Á FORSÍÐU Morgunblaðsins þann 17. mars. sl. er haft eftir varaformanni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að tími háspennulína sé liðinn. Vísar hún m.a. til langs biðtíma eftir mastraefni og einnig til fjárhagssjónarmiða, þ.e. hækkunar á stálverði og þess að mismunur á kostnaði við jarðstreng og loftlínur sé alltaf að minnka.

Er sérstaklega vísað til Reykjanesfólksvangs í greininni og nefnt að líklega verði frekar lagðir jarðstrengir þar en háspennulínur.

Fornleifavernd ríkisins vill hér með vekja almenna athygli á að í jörðu leynast ógrynni minja eftir gengnar kynslóðir. Sumar minjanna eru sýnilegar á yfirborði, aðrar, sem yfirleitt eru elstu minjar landsins, liggja sumar djúpt undir yfirborðinu og eru því huldar mannsauganu.

Á undanförnum árum hafa minjar víða um land skemmst við það að jarðstrengir og ýmiss konar lagnir hafa verið lögð í fornleifarnar án vitundar Fornleifaverndar ríkisins. Má rekja það m.a. til þess að lagning jarðstrengja og lagna hefur í þeim tilfellum verið undanskilin umsögnum vegna mats á umhverfisáhrifum og því ekki lent inni á borði hjá Fornleifavernd ríkisins.

Á Reykjanesfólksvangi er fjöldi fornleifa og einstakt menningarlandslag sem nauðsynlegt er að varðveita til framtíðar. Innan fólkvangsins eru m.a. minjar og menningarlandslag í Krísuvík og mjög fornar minjar í Húshólma. Þar er m.a. að finna minjar bæjar sem talinn er frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar og eru útlínur hans varðveittar í hrauninu, sem er einstakt hérlendis.

Fornleifavernd ríkisins hvetur til þess að munað sé eftir fornleifum í tengslum við alla umhverfisvernd og að málshátturinn í upphafi skyldi endinn skoða sé hafður að leiðarljósi.

Kristín Huld er forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, Agnes er minjavörður Fornleifaverndar ríkisins á Reykjanesi.