Er sérstaklega vísað til Reykjanesfólksvangs í greininni og nefnt að líklega verði frekar lagðir jarðstrengir þar en háspennulínur.
Fornleifavernd ríkisins vill hér með vekja almenna athygli á að í jörðu leynast ógrynni minja eftir gengnar kynslóðir. Sumar minjanna eru sýnilegar á yfirborði, aðrar, sem yfirleitt eru elstu minjar landsins, liggja sumar djúpt undir yfirborðinu og eru því huldar mannsauganu.
Á undanförnum árum hafa minjar víða um land skemmst við það að jarðstrengir og ýmiss konar lagnir hafa verið lögð í fornleifarnar án vitundar Fornleifaverndar ríkisins. Má rekja það m.a. til þess að lagning jarðstrengja og lagna hefur í þeim tilfellum verið undanskilin umsögnum vegna mats á umhverfisáhrifum og því ekki lent inni á borði hjá Fornleifavernd ríkisins.
Á Reykjanesfólksvangi er fjöldi fornleifa og einstakt menningarlandslag sem nauðsynlegt er að varðveita til framtíðar. Innan fólkvangsins eru m.a. minjar og menningarlandslag í Krísuvík og mjög fornar minjar í Húshólma. Þar er m.a. að finna minjar bæjar sem talinn er frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar og eru útlínur hans varðveittar í hrauninu, sem er einstakt hérlendis.
Fornleifavernd ríkisins hvetur til þess að munað sé eftir fornleifum í tengslum við alla umhverfisvernd og að málshátturinn í upphafi skyldi endinn skoða sé hafður að leiðarljósi.
Kristín Huld er forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, Agnes er minjavörður Fornleifaverndar ríkisins á Reykjanesi.