Articles

Print
Minjar október

Siglunes

Siglunes er nyrsta táin sem skagar út við mynni Siglufjarðar að austanverðu. Þar stóð samnefndur bær og kirkjustaður um aldir. Frá Siglunesi var stutt að fara fyrir róðrarbáta á gjöful fiskimið og komu menn víða að til að stunda þaðan útgerð. Bærinn fór í eyði árið 1988 enda var aldrei lagður akvegur um hinar illræmdu Nesskriður og var því þægilegast að fara sjóleiðina að nesinu. Sjá Siglunes í kortasjá.

Siglunes var umsvifamikil verstöð fyrr á öldum og líklega kaupskipahöfn á síðmiðöldum. Líklegt er að þar hafi myndast einhver vísir að þéttbýlisstað á 14. – 15. öld og geymir nesið því einhverjar elstu minjar um slíka þróun hérlendis.

Sjórinn hefur verið mjög aðgangsharður við nesið í gegnum tíðina. Fyrrum hefur Siglunes verið miklu stærra en það er nú og sagnir eru til um mikil landbrot þar af völdum sjávargangs. Í Ábókum Espólíns segir við árið 1772 að það haust hafi verið stórviðrasamt, „med svo miklu brimi, at sagt er bodarnir hafi gengit uppá Drángey á Skagafirdi ok yfir midt Siglunes, en bændr mistu fjölda skipa; voru talin 80 skip, smá ok stór, sem brotnudu, frá Hrauni á Skaga ok nordr á Tjörnes, en fiskihjallar ok veidafæri var þá ótalit. Haustið 1934 féll sjór yfir Siglunes og braut mjög norðan og vestan af strönd nessins. Tók sjórinn alla báta sem þar voru á nesinu, að undanteknum einum. Þessi dæmi eru til vitnis um hversu landeyðingin getur orðið mikil í einstökum stórviðrum, en grynningar og skerjaklasi út af nesinu bendir til að sjór hafi sorfið það og molað í aldana rás.

 

Könnunarleiðangrar þeir sem farnir voru á vegum Fornleifaverndar ríkisins sumrin 2008 og 2009 beindust fyrst og fremst að minjum við sjóinn, á nesinu niður frá bænum. Skráðar voru samtals 22 fornleifar og var ástand þeirra afar misjafnt. Verst var ástand minja við suður strandlengjuna en þar hafði sjórinn brotið mjög úr bökkum. Af samanburði við loftmyndir má ætla að landbrotið þar sé um 6-10 metrar frá árinu 2000 og fram til dagsins í dag. Má þá ímynda sér hvað sjórinn hefur tekið af nesinu frá landnámi. Við suðurströndina voru skráðar og kannaðar 6 búðir og forn ruslahaugur. Ljóst er að þessar minjar eru flestar að stofni til frá því fyrir Heklugos árið 1104 og voru áfram í notkun eftir þann tíma. Minjarnar höfðu hins vegar spillst mjög vegna ágangs sjávar og er lítið eftir af sumum þeirra. Nánari upplýsingar um rannsókn Fornleifaverndar ríkisins á Siglunesi má finna í eftirfarandi skýrslu Fornleifar við Siglunes. Úttekt.

Tvö síðustu sumur (2011 og 2012) hafa farið fram fornleifarannsóknir á Siglunesi í umsjá Birnu Lárusdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands og verður áhugavert að sjá niðurstöður þeirrar rannsóknar.

Siglunes er einn af mörgum minjastöðum sem við erum að missa út í sjó vegna landbrots. Aðrir þekktir minjastaðir sem rannsóknir hafa farið fram á undanfarið er Kolkuós og Gufuskálar. Þess fyrir utan eru minna þekktarstrandminjar í hundraða tali að hverfa út í sjó og með þeim mikilvægur þáttur útgerðarsögu Íslands.

Hlekkur fyrir Kolkuós: http://www.holar.is/holarannsoknin/kolkuos/

Hlekkur fyrir Gufuskála: http://www.facebook.com/GufuskalarArchaeology

 

Leita