Lög um verndun fornmenja
dags. 16. nóv. 1907.
1. kafli.
Skifting fornmenja og skýringar orða.
1. gr.
Fornmenjar eru annaðhvort staðbundnar eða lausar eða hvorttveggja. Staðbundnar fornmenjar eru í lögum þessum nefndar fornleifar, en lausar fornmenjar forngripir. Þær fornmenjar, sem eru hvorttveggja, staðbundnar og lausar, teljast til fornleifa og nefnast lausar fornleifar.
2. gr.
Til fornleifa teljast:
a. Þingbúðarústir, gömul mannvirki á fornum þingstöðum, sögustöðum og öðrum merkisstöðum, sem nokkurs er um vert fyrir menningarsögu landsins, rústir af hofum, hörgum og hverskonar blótstöðum frá heiðni, af kirkjum og kirkjugörðum, kapellum og bænahúsum, forn vígi eða rústir af þeim, forn garðlög, rústir af fornum bæjum, seljum, búpeningshúsum, farmannabúðum, naustum og öðrum fornbyggingum, enn fremur fornir öskuhaugar.
b. Fornar grafir, haugar, dysjar og leiði i jörðu eða á, er menn hafa verið grafnir, heygðir eða dysjaðir í.
c. Hellar með áletrunum eða öðrum verksummerkjum af manna höndum.
d. Áletranir og myndir gjörðar af manna höndum á jarðfasta steina eða berg eða annað jarðfast efni.
e. Fornar kirkjur, bæjarhús og önnur hús, sem ekki framar eru notuð til þess, sem upphaflega var til ætlast.
f. Alt annað, er telja má til fornra mannvirkja.
3. gr.
Til lausra fornleifa teljast:
a. Þeir munir allir, er finnast í og tilheyra fornum haugum, dysjum eða leiðum, þar á meðal leifar af líkömum manna og dýra.
b. Þeir munir allir, er finnast í og tilheyra fornum hofrústum, eða hafa verið notaðir í hofum, svo sem blótbollar og því um líkt.
c. Öll minningamörk dáinna manna, bautasteinar, legsteinar, krossar, minnisvarðar og annað þess háttar, sem ekki er jarðfast, og eins þó að eitthvað af þessu hafi verið jarðfest með steinlími eða öðru af mannavöldum.
4. gr.
Til forngripa teljast:
a. Lausir steinar, sem mannaverk eru á og ekki komast undir 3. grein, svo sem steinar með fangamörkum eða öðrum áletrunum eða myndum.
b. Allskonar fornir kirkjugripir.
c. Forn handrit, skjöl og bréf úr skinni eða pappír.
d. Allskonar gamlar myndir og gripir með myndum eða letri á.
e. Fornir peningar, úr hverjum málmi sem er.
f. Gamlir dúkar, ofnir eða saumaðir, ábreiður, bönd og allskonar forn vefnaður og hannyrðir, fornir vefstólar eða partar af þeim og öll forn áhöld, er til hannyrða hafa verið höfð eða vefnaðar.
g. Allskonar fornir skrautgripir og listasmíði, úr hverju efni sem er.
h. Gamlir búningar og búningsskraut karla og kvenna, þar á meðal hringir, belti og því um líkt, enn fremur allskonar gömul vopn, hlífar, verjur, hnífar o. s. frv.
i. Allskonar gamall húsbúnaður og búsáhöld, þar á meðal borð-búnaður og reiðskapur, fornar matarleifar, forn skip, skipspartar og skipabúnaður, ef það kemst ekki undir 3. grein, forn smíðatól, veiðarfæri og önnur forn verkfæri og því um líkt.
j. Gömul taflborð og taflmenn og önnur tafláhöld.
k. Fjalir og stokkar úr fornum húsum og hirslum.
l. Allir gamlir munir, sem menn hafa notað eða mannaverk eru á.
2. kafli.
Um fornleifar.
5. gr.
Fornmenjavörður skal semja skrá yfir allar fornleifar, taldar í 2. grein, sem nú eru kunnar og honum þykir ástæða til að friða, og skal tiltaka staðinn svo nákvæmlega, sem unt er. Nú kemst fornmenjavörður að raun um, að fornleifar, sem hann telur nauðsyn á að friða, séu til á einhverjum stað, og skal hann þegar taka þær á fornleifaskrá.
6. gr.
Allar þær fornleifar, sem á fornleifaskrá standa, skulu friðaðar, og sér stjórnarráðið um, að friðhelginni sé þinglýst á því þingi, er hver einstök fornleif liggur til. Friðhelgi telst frá þinglýsingardegi.
Ef landeigandi eða ábúandi verður fyrir nokkru tjóni við það að friðhelgi er á lögð, skal greiða skaðabætur úr landssjóði. Nú rís ágreiningur milli þess, er hlut á að máli, og stjórnarráðsins um það, hvort nokkrar skaðabætur skuli greiða eða um upphæð skaðabóta, og skulu óvilhallir, dómkvaddir menn skera úr því máli. Skaða-bótakröfur skulu komnar til stjórnarráðsins, áður en 4 mánuðir eru liðnir frá þinglýsingardegi, ella falla þær niður.
7. gr.
Allar lausar fornleifar, sem taldar eru í 3. grein og eru eldri en 150 ára, eru friðaðar án þinglýsingar, og eru eign landsins. Fornleifar þessar skal setja á sérstaka skrá, svo fljótt, sem því verður við komið.
8. gr.
Friðuðum fornleifum má enginn, hvorki landeigandi né leiguliði né nokkur annar, spilla, granda né breyta, laga né aflaga né úr stað flytja, nema leyft sé í lögum þesum, og skal þá fara eftir þeim reglum, sem lögin setja.
9. gr.
Skyldur er ábúandi eða leiguliði að gjöra lögreglustjóra við vart, ef friðuð fornleif liggur undir skemdum af völdum náttúrunnar eða er skemd af manna völdum. Gjörir þá lögreglustjóri þær bráðabirgðar-ráðstafanir, sem þarf, til að varna skemdum, og skýrir þegar stjórnarráðinu frá málavöxtum, en stjórnarráðið ákveður með ráði fornmenjavarðar, hvað gjöra skuli. Aðgjörðin greiðist úr landssjóði, nema skemdin sá af manna völdum; þá greiðir sá, er skemdi.
Vilji landeigandi eða leiguliði gjöra jarðrask það nokkuð, er haggar við friðuðum fornleifum, eða gjöra nokkuð það, er þeim geti spilt, skal hann skýra lögreglustjóra frá því og um leið lýsa fornleifunum og gjöra skýra grein fyrir þeim breytingum, er hann vill gjöra. Þá skýrslu ber þegar að senda til stjórnarráðsins, er ákveður með ráði fornmenjavarðar hvað gjöra megi og með hvaða skilmálum.
Ef landeigandi eða leiguliði við gröft eða á annan hátt finnur fornleifar, er teljast verða til menja þeirra, er nefndar eru í 2. eða 3. gr., skal hann jafnskjótt skýra frá því, eins og nú var sagt, og líti út fyrir, að um mikilsverðar fornleifar sé að ræða, skal hætta vinnu að svo miklu leyti, sem hún kann að hagga við fornleifunum, þangað til úrskurður stjórnarráðsins er fenginn. Bætur fyrir tjón þad, er af því kann að leiða, að vinnu er hætt, greiðast úr landssjóði, og skera óvilhallir dómkvaddir menn úr, ef ágreiningur verður um skaðabæturnar.
Grasi vaxnar fornmenjar, sem nú eru slegnar eða beittar, má framvegis nota á þann hátt, ef engin hætta er á, að þær spillist við það.
10. gr.
Ef ómögulegt er að komast hjá því, að eyða eða spilla fornleifum við vegagjörð eða önnur mannvirki í þarfir landsins, sýslu eða sveitar, nema þá með mjög mikilli fyrirhöfn og kostnaði, skal verkstjóri eða það stjórnarvald, sem hlut á að máli, skýra stjórnarráðinu frá málavöxtum, áður en nokkuð er haggað við fornleifunum, og ákveður þá stjórnarráðið, hvað gjöra skuli.
11. gr.
Stjórnarráðið hefur ætíð rétt til að gjöra eða láta gjöra alt það, er því þykir þörf á vera, til þess að rannsaka fornleifar með greftri eða á annan hátt, eða til verndar fornmenjum, viðhalds eða endurbóta, en þó skal eiganda eða umráðanda jafnan gjört viðvart um það áður. Eftir gröft og aðrar rannsóknir, er jarðraski valda, skal sá, er rannsókn stýrði, koma öllu í samt lag aftur, nema honum þyki betur fara á annan veg.
Valdi slíkar rannsóknir eða aðgjörðir eigendunum eða umráðendum fornleifanna nokkru tjóni eða tilkostnaði, skal sá skaði bættur úr landssjóði. ef krafist er. Náist samkomulag ekki um skaðabætur, skulu þær metnar af óvilhöllum dómkvöddum mönnum.
3. kafli.
Um forngripi.
12. gr.
Hver sá, er finnur forngrip í jörðu eða á, er skyldur til að skýra lögreglustjóra þegar í stað nákvæmlega frá fundinum. Jafn¬framt skal hann afhenda lögreglustjóra það, sem fundist hefir, nema hætt sé við, að það skemmist í flutningnum, þá skal hann varðveita það á þann hátt, sem hann best getur, uns lögreglustjóri ráðstafar því. Ef líkur eru til, að fleiri forngripir þeir, er mikilsverðir eru, muni dyljast á fundarstaðnum, skal finnandi við engu hagga, en skýra þegar lögreglustjóra frá. Fundarstað skal finnandi jafnan greina skilmerkilega.
Ef forngripur finst við mannvirki þau eða störf, sem framkvæmd eru samkvæmt 10. grein, skal finnandi afhenda hann verkstjóra eða því stjórnarvaldi, sem hlut á að máli, og skal viðtakandi gefa lögreglustjóra nákvæma skýrslu um fundinn og fari með, sem að framan er greint. Nú finst forngripur við rannsókn þá eða aðgjörð, sem getur í 11. grein, og skal þá sá, er rannsókninni eða aðgjörðinni stýrir, annast um hlutinn og sjá um, að hann komist til Forngripasafns Íslands og að ágrip af skýrslu um fundinn sé birt, sem síðar segir (sbr. 14. grein).
Skylt er lögreglustjóra að gefa skriflega viðurkenningu fyrir móttöku forngrips, ef þess er óskað.
13. gr.
Jafnskjótt sem lögreglustjóri hefir fengið skýrslu um fund forngrips, skal hann skýra þeim manni eða mönnum frá, sem land eiga undir, þar sem forngripur fanst, og jafnframt senda stjórnarráðinu skýrsluna með þeim viðaukum frá sjálfum sér, sem honum virðast nauðsynlegir. Enn fremur sendir hann þá forngripi, sem honum hafa verið afhentir, til stjórnarráðsins, nema hætt sé við, að þeir skemmist í flutningi, þá skal lögreglustjóri geyma gripina, uns stjórnarráðið ráðstafar þeim.
Ef lögreglustjóra virðast líkur til, að fleiri forngripir muni dyljast þar, sem forngripur fanst, skal hann geta þess í skýrslu sinni til stjórnarráðsins og sjá um, að engu verði rótað á fundarstaðnum, þangað til rannsókn getur fram farið.
14. gr.
Ágrip af þeim skýrslum um fundna forngripi, sem stjórnarráðið fær frá lögreglustjóra eða þeim manni, er rannsókn eða aðgjörð stýrir samkvæmt 11. grein (sbr, 13. og 12. grein), svo framarlega sem líkur eru til, að nokkur geti sannað eignarétt sinn að forngripunum, skal birta þrisvar í því blaði, er flytur stjórnarvaldaauglýsingar, með áskorun til eiganda, ef nokkur sé, að gefa sig fram.
Alla þá forngripi, sem nefndir eru í fundarskýrslu, skal fornmenjavörður taka á sérstaka skrá, og skulu þeir geymdir á sérstökum stað í Forngripasafni Íslands, uns útséð er um, hvort eigandi finst (sbr. 15. og 16. grein).
15. gr.
Nú gefur eigandi sig fram, áður en 4 mánuðir eru liðnir frá síðustu lögbirtingu fundins forngrips, og sannar eignarrétt sinn, og skal þá afhenda eiganda hann gegn því, að hann greiði lögbirtingarkostnað, en jafnframt skal fornmenjavörður setja hlutinn á forngripaskrá þá, er getur í 19. grein, ef honum þykir hann þess verður, og leggst þá á hann sú kvöð, er þeirri skrásetning er samfara.
16. gr.
Nú líða svo 4 mánuðir, frá síðustu lögbirtingu fundins forngrips, að enginn eigandi leiðir sig að honum, og verður hann þá eign landssjóðs að þriðjungi, finnanda að þriðjungi, og að þriðjungi eign þess, sem land á undir, þar sem hluturinn fannst.
Ef gripurinn hefir fundist við framkvæmd á vegagjörðum eða öðrum mannvirkjum, samkvæmt 10 gr., eða í almenningum, afréttarlöndum, eða á heiðum uppi, sem ekki teljast til heimalanda, telst landsjóður sem landeigandi, og sömuleiðis ef hann hefir fundist á kirkjujörðum, eða ef hreppsfélag, sýslufélag eða bæjarfélag á land undir; eignast landssjóður þá forngripinn að tveim þriðjungum, en finnandi að þriðjungi.
Ef forngripur hefir fundist við rannsókn þá eða aðgjörð, er ræðir um í 11. grein, telst landssjóður sem finnandi og eigandi gripsins að tveim þriðjungum, en landeigandi að þriðjungi, nema um þá hluti sé að ræða, sem eru óskift eign landsins samkvæmt 7. gr.
Ef fleiri eru finnendur en einn, skiftist eignarrétturinn að finn¬anda þriðjungi jafnt milli þeirra. Ef landeigendur eru fleiri en einn skiftist eignarrétturinn að landeiganda þriðjungi milli þeirra í réttri tiltölu við eign hvers eins í landinu.
17. gr.
Ef finnandi leynir fundi forngrips og skýrir ekki lögreglustjóra frá honum (sbr. 12. gr.), eða spillir honum eða lógar af ásettu ráði, telst sem ólögleg meðferð á fundnu fé eða skemd á eignum annara og fer eftir ákvæðum almennra hegningarlaga 249., 296. og 298. grein, enda missir þá finnandi tilkall til síns þriðjungs.
18. gr.
Landssjóður á kauprétt að þeirri hlutdeild í fundnum forngrip, sem hann á ekki, eftir mati fornmenjavarðar. Því mati getur meðeigandi skotið til stjórnarráðsins, og nefnir það þá til 3 óvilhalla lögmetendur, er vit hafa á forngripum, og skal standa við mat þeirra. Sé það hærra en mat fornmenjavarðar, greiðir landssjóður kostnað við yfirmatið, en ella áfrýjandi.
Ef forngripurinn er úr gulli eða silfri, eða sé um silfurpeninga eða gullpeninga að ræða, skal meta málmverð hlutarins og leggja ofan á 10 af hverju hundraði, og fær meðeigandi landssjóðs, eða meðeigendur, að réttri tiltölu, ef fleiri eru, það andvirði óskert, eins og landssjóður setti ekkert í.
Ef kaupréttar landssjóðs er eigi neytt, áður ár sé liðið frá því, er lögreglustjóra var skýrt frá fundinum og sé fornmenjaverði eða stjórnarráði um dráttinn að kenna, missir landssjóður eignarréttar til síns hluta í forngripnum, og skal þá afhenda hann meðeiganda, eða meðeigendum, landssjóðs gegn borgun lögbirtingarkostnaðar, en jafnframt skal fornmenjavörður setja hlutinn a forngripaskrá þá, er getur i 19. grein, ef hann telur hann þess verðan, og fellur þá á hann sú kvöð, sem þeirri skrásetningu er samfara.
Ef fornmenjavörður telur fundinn forngrip einskisverðan fyrir menningarsögu landsins, eignast finnandi og landeigandi hann að helmingi hvor, og skal þá afhenda þeim hann gegn kvittun þeirra, jafnskjótt sem lögbirtingarfrestur er liðinn, ef þeir vitja hans. En vitji þeir hans ekki, áður fjórir mánuðir eru liðnir frá því, er þeim var skrifað um, að landið mundi eigi nota kauprétt sinn, má lóga hlutnum.
19. gr.
Fornmenjavörður skal setja þá forngripi, sem einstakir menn eiga, a sérstaka forngripaskrá, ef eigendur beiðast þess eða leyfa. Skal beiðnin eða leyfið vera skriflegt og undirskrifað af eiganda i viðurvist vitundarvotta eða lögbókanda (notarii publici) og geymist i skjalasafni Forngripasafnsins. A þessa skrá skal fornmenjavörður og setja alla forna kirkjugripi, svo fljótt sem því verður við komið, og þarf ekki neitt leyfi til þess, enn fremur þá gripi, sem a þessa skrá skal setja samkvæmt 15. og 18. grein.
Þá muni, sem á þessa skrá eru settir, skal auðkenna með sérstöku skrásetningarmerki, ef því verður viðkomið án þess að gripurinn skemmist við.
20. gr.
Þeir forngripir, sem á skrá standa, eru friðaðir a sama hatt og friðaðar fornleifar (sjá 8. grein), þó er eiganda heimilt, að flytja þá úr stað, en ekki af landi burt.
Ef eigandi gefur öðrum skrásettan forngrip, skal hann láta fornmenjavörð vita um eigandaskiftin.
Forngripasafnið á forkaupsrétt að skrásettum forngrip, og skal eigandi því ávalt bjóða fornmenjaverði hlutinn, áður en hann selji öðrum hann, ella er sala ógild og fellur þá hluturinn ókeypis til Forngripasafnsins. Nú notar Forngripasafnið eigi forkaupsrétt sinn, þá má eigandi selja hlutinn, en þó skal hann láta fornmenjavörð vita, hverjum hann selur.
Ef skrásettur forngripur gengur að erfðum, skal skiftaráðandi eða, ef erfingjaskifti eru, þá erfingi sá, er eignast gripinn, láta fornmenjavörð vita um eigandaskiftin.
Í hvert skifti, sem eigandaskifti verða að skrásettum forngrip, skal ávalt láta fornmenjavörð vita um eigandaskiftin, ella er eignarheimildin ógild, og fellur þá hluturinn endurgjaldslaust til Forn¬gripasafnsins.
Fornmenjavörður skal ávalt geta þess í forngripaskrá, ef eigandaskifti verða að skrásettum forngrip.
4. kafli.
Um útflutning fornmenja og geymslu.
21. gr.
Engar fornmenjar, eldri en 150 ára, má flytja úr landi, nema með leyfi stjórnarráðsins. Sé vafi á um aldur slíkra hluta, sker fornmenjavörður úr.
22. gr.
Allir forngripir, sem landssjóður eignast eftir lögum þessum eða á annan hátt, skulu geymdir í Forngripasafni Íslands. Þó skal Landsbókasafnið eða Landsskjalasafnið taka við fornum handritum, skjölum og bókum.
5. kafli.
Almenn ákvæði.
23. gr.
Ef fundi forngrips er leynt, varðar eftir 17. gr. Önnur brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum frá 20 til 500 kr.; auk þess má taka munina eða andvirði þeirra af hinum seka. Með mál út af brotunum skal farið sem almenn lögreglumál.
24. gr.
Stj6rnarráðið skipar sérstakan fornmenjavörð, og hefir hann jafnframt umsjón með Forngripasafninu. Fornmenjavörður skal hafa 1800 kr. í árslaun. Fela má stjórnarráðið fornmenjaverði að hafa á hendi og framkvæma að öllu eða nokkru leyti þau réttindi eða störf, sem því eru lögð í lögum þessum, þó þannig, að jafnan geti sá, sem áánægður er með ákvæði fornmenjavarðar, skotið málinu til stjórnarráðsins.
25. gr.
Opið bréf 7. ágúst 1752, svo og öll önnur ákvæði, sem koma í bága við lög þessi eru úr gildi numin.
Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is