Print

Evrópusamningur um vernd fornleifaarfsins (endurskoðaður)

 

Valletta, 16. I. 1992 - Safn Evrópusamninga/143
Þýðing þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.

Inngangsorð

Aðildarríki Evrópuráðsins og önnur ríki, sem eru aðilar að menningarsáttmála Evrópu og hafa undirritað samning þennan,
- hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að efla einingu meðal aðildarríkjanna í því skyni, meðal annars, að standa vörð um og stuðla að framgangi þeirra hugsjóna og meginreglna sem eru sameiginleg arfleifð þeirra,
- hafa hliðsjón af menningarsáttmála Evrópu, sem var undirritaður í París 19. desember 1954, einkum 1. og 5. gr.,
- hafa hliðsjón af Evrópusamningnum um byggingararfleifðina, sem var undirritaður í Granada 3. október 1985,
- hafa hliðsjón af Evrópusamningnum um brot sem beinast að menningarverðmætum, sem var undirritaður í Delfí 23. júní 1985,
- hafa hliðsjón af tilmælum frá þingi Evrópuráðsins um fornleifafræði, einkum tilmælum nr. 848 (1978), 921 (1981) og 1072 (1988),
- hafa hliðsjón af tilmælum nr. R (89) 5 varðandi friðun og umbætur á fornleifaarfinum í tengslum við skipulagsframkvæmdir í þéttbýli og dreifbýli,
- minna á að fornleifaarfurinn er ein frumforsenda þess að menn öðlist þekkingu á sögu fornrar siðmenningar,
- staðfesta að evrópskur fornleifaarfur, sem vitnar um forna sögu, liggur nú undir spjöllum vegna síaukins fjölda stórtækra skipulagsáætlana, enn fremur af náttúrunnar völdum og vegna heimildarlauss eða óvísindalegs uppgraftar og ónógs skilnings almennings,
- halda fram gildi þess að koma á fót stjórnsýslulegu og vísindalegu eftirliti, á þeim stöðum þar sem slíkt hefur ekki verið gert enn, og nauðsyn þess að friðun fornleifaarfsins endurspeglist í skipulagsmálum þéttbýlis og dreifbýlis og í þróun í menningarmálum,
- leggja áherslu á að ábyrgð á friðun fornleifaarfsins eigi ekki aðeins að hvíla á hlutaðeigandi ríki, heldur á öllum löndum Evrópu, svo að unnt verði að draga úr hættu á hrörnun og stuðla að varðveislu með því að hvetja til gagnkvæmra skipta á sérfræðingum og samanburðar á reynslu,
- gera sér ljósa nauðsyn þess að bæta við meginreglurnar, sem settar voru fram í Evrópusamningnum um vernd fornleifaarfsins, sem undirritaður var í London 6. maí 1969, vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið í skipulagsmálum í löndum Evrópu,
- og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:


Skilgreining á fornleifaarfi 

1. gr.
1. Tilgangur þessa samnings (endurskoðaðs) er að friða fornleifaarfinn sem uppsprettu samevrópsks minnis og sem tæki til sagnfræðilegra og vísindalegra rannsókna.
 2. Í því skyni skal telja til fornminja allar fornleifar, hluti og hvers kyns önnur ummerki manna frá liðnum tímum:
i - ef varðveisla þeirra og rannsóknir á þeim koma að gagni við að rekja sögu mannkyns og vensl þess við náttúrulegt umhverfi;
ii - þar sem helstu heimildirnar eru uppgröftur eða fundir og aðrar aðferðir við að rannsaka mannkynið og umhverfi þess; og
iii - sem er að finna á einhverju því svæði sem tilheyrir lögsögu samningsaðilanna.
3. Til fornleifaarfsins teljast mannvirki, byggingar, byggingaheildir, skipulagðir staðir, færanlegir munir, annars konar mannvirki í sínu rétta samhengi, hvort heldur er á láði eða í legi.

Ákvörðun arfsins og ráðstafanir til friðunar 

2. gr.
Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til þess að koma á fót, með þeim ráðum sem eru tiltæk í hverju ríki, löggjöf til friðunar fornleifaarfsins þar sem kveðið er á um:
i - að halda skuli skrá um fornleifar hlutaðeigandi ríkis og friðlýsa mannvirki og svæði;
ii - að afmörkuð verði friðlýst minjasvæði, jafnvel þótt engar leifar séu sýnilegar á láði eða í legi, til að varðveita efnisleg ummerki sem verði rannsóknarefni komandi kynslóða;
iii - að skylt sé að tilkynna þar til bærum yfirvöldum um það, þegar fornleifar finnast af tilviljun, og að slíkar fornleifar verði gerðar aðgengilegar til skoðunar.

3. gr.
 Til þess að varðveita fornleifaarfinn og tryggja vísindalegt gildi fornleifarannsókna skuldbindur sérhver samningsaðili sig til:
i - að beita aðferðum til að heimila og hafa eftirlit með uppgrefti og annarri starfsemi á sviði fornleifafræða til þess:
a - að koma í veg fyrir ólöglegan uppgröft eða brottnám fornleifa,
b - að tryggt verði að fornleifauppgröftur og -leit fari fram með vísindalegum hætti og að því tilskildu að:
– beitt sé rannsóknaraðferðum sem ekki valda spjöllum, þar sem því verður við komið,
– fornleifar verði ekki afhjúpaðar eða skildar eftir óvarðar á meðan á uppgrefti stendur eða að honum loknum án þess að tilhlýðilegar ráðstafanir séu gerðar vegna geymslu þeirra, varðveislu og umsjónar með þeim;
ii - að sjá til þess að uppgröftur og aðrar vinnuaðferðir, sem geta valdið spjöllum, séu aðeins framkvæmdar af sérfræðingum sem hafa fengið til þess heimild;
iii - að notkun málmleitartækja og annars leitarbúnaðar eða aðferðar til fornleifarannsókna sé háð sérstöku fyrirframleyfi, ef kveðið er á um slíkt í landslögum hlutaðeigandi ríkis.
 

4. gr.
Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til þess að hrinda í framkvæmd ráðstöfunum til efnislegrar friðunar á fornleifaarfinum og kveða á um, eftir því sem tilefni er til:
i - að stjórnvöld festi kaup á eða friði með öðrum tiltækum ráðum þau svæði sem ætlað er að flokka sem friðlýst minjasvæði;
ii - að fornminjar verði varðveittar og þeim haldið við, helst í sínu rétta umhverfi.
iii - að fornminjum, sem hafa verið færðar úr upprunalegum stað sínum, verði komið í hentuga geymslu.

Heildarstefna í varðveislu fornleifaarfsins

5. gr.
Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til:
i - að leitast við að sætta og samhæfa fornleifafræðilegar kröfur og skipulagsáætlanir með því að sjá til þess að fornleifafræðingar eigi aðild að:
a - mótun skipulagsstefnu, sem miði að jafnvægi í áætlunum um friðun, varðveislu og endurbætur á stöðum sem eru áhugaverðir frá sjónarmiði fornleifafræðinnar;
b - áætlunum um byggðarþróun á öllum stigum;
ii - að tryggja kerfisbundið samráð milli fornleifafræðinga og skipuleggjenda í þéttbýli og dreifbýli í því skyni að greiða fyrir:
a - breytingum á skipulagi sem kynni að spilla fornleifaarfinum;
b - því, að veitt verði nægilegt ráðrúm og efni til þess að gera viðunandi rannsóknir á vettvangi og birta niðurstöður þeirra;
iii - að tryggja að mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir í framhaldi af því taki að fullu mið af stöðum sem hafa að geyma fornleifar og umhverfi þeirra;
iv - að kveða á um varðveislu fornleifa í sínu upprunalega umhverfi þegar því verður við komið, ef þær finnast við framkvæmd verks;
v - að tryggja að aðgangur almennings að stöðum, sem hafa að geyma fornleifar, spilli ekki fornleifafræðilegu og vísindalegu gildi slíkra staða og umhverfi þeirra, einkum þar sem reisa þarf mannvirki til þess að taka á móti miklum fjölda gesta.

Fjármögnun fornleifarannsókna og –varðveislu 

6. gr.
Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til:
i - að sjá til þess að fornleifarannsóknir njóti opinberra fjárstyrkja frá ríki, héraði og sveitarstjórnum eftir því sem við á;
ii - að auka fjárveitingar til þess að bjarga fornleifum:
a - með því að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að við stórframkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila sé gert ráð fyrir heildarfjármögnun fornleifaframkvæmda, sem þeim tengjast, hvort heldur úr opinberum sjóðum eða einkageiranum eftir því sem við á;
b - með því að gera ráð fyrir vísindalegum forrannsóknum á sviði fornleifa og uppgrefti í fjárhagsáætlunum fyrir slíkar stórframkvæmdir, ásamt vísindalegri samantekt og heildarbirtingu niðurstaðna, á sama hátt og gert er ráð fyrir rannsóknum vegna umhverfisáhrifa og skipulagsmála.
 

Söfnun og miðlun vísindalegra upplýsinga

7. gr.
Í því skyni að greiða fyrir rannsóknum á fornleifafundum og miðlun þekkingar um þá skuldbindur sérhver samningsaðili sig til:
i - að gera eða uppfæra kannanir, skrár og uppdrætti af fundarstöðum fornleifa í lögsögu sinni.
ii - að gera allar tiltækar ráðstafanir til þess að tryggja að gerð verði birtingarhæf, vísindaleg samantekt í kjölfar fornleifarannsókna, áður en nauðsynleg, sérfræðileg heildarúttekt er birt.

8. gr.
Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til:
i - að greiða fyrir innlendum og alþjóðlegum skiptum á fornleifum í sérfræðilegu og vísindalegu skyni og gera jafnframt nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að slíkir flutningar rýri í engu menningarlegt og vísindalegt gildi slíkra muna;
ii - að hvetja til upplýsingamiðlunar um yfirstandandi fornleifarannsóknir og uppgröft og stuðla að skipulagningu alþjóðlegra rannsóknarverkefna.

Efling almenningsvitundar

9. gr.
Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til:
i - að takast á hendur fræðslustarf í því skyni að vekja og byggja upp hjá almenningi vitund um gildi fornleifaarfsins til skilnings á fortíðinni og um þær hættur sem steðja að þeim arfi;
ii - að greiða fyrir aðgangi almennings að mikilvægum fornleifum, einkum stöðum þar sem fornleifar hafa fundist, og stuðla að því að heppilegt úrval fornleifa sé almenningi til sýnis.
 

Komið í veg fyrir ólöglega dreifingu fornleifa 

10. gr.
Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til:
i - að sjá til þess að þar til bær stjórnvöld og vísindastofnanir skiptist á upplýsingum um ólöglegan uppgröft ef hans verður vart;
ii - að tilkynna þar til bærum stjórnvöldum í upprunaríki, sem á aðild að þessum samningi (endurskoðuðum), um öll tilvik þar sem grunur leikur á að verið sé að bjóða muni sem eru fengnir úr ólöglegum uppgrefti eða með ólögmætum hætti úr opinberum uppgrefti, og að útvega nánari upplýsingar;
iii - að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að söfn og áþekkar stofnanir, sem gera innkaup sín undir opinberu eftirliti, festi ekki kaup á fornleifum sem grunur leikur á að séu úr eftirlitslausum fundum eða ólöglegum uppgrefti eða hafi verið fengnir með ólögmætum hætti úr opinberum uppgrefti;
iv - að því er varðar söfn og áþekkar stofnanir á landsvæði samningsaðila, sem lúta ekki opinberu eftirliti við innkaup:
a - að senda þeim texta þessa samnings (endurskoðaðs);
b - að láta einskis ófreistað við að fá téð söfn og stofnanir til þess að virða meginreglurnar sem settar eru fram í 3. mgr. hér á undan;
v - að takmarka eins og unnt er, með fræðslu, upplýsingum, árvekni og samvinnu, flutning fornleifa sem eru fengnar úr eftirlitslausum fundum eða ólöglegum uppgrefti, eða fengnar með ólögmætum hætti úr opinberum uppgrefti.

11. gr.
Þessi samningur (endurskoðaður) hefur engin áhrif á gildandi eða ógerða tvíhliða eða marghliða samninga samningsaðilanna um ólöglega dreifingu fornleifa eða skil þeirra til réttmæts eiganda.
 

Gagnkvæm tæknileg og vísindaleg aðstoð

12. gr.
Samningsaðilar skuldbinda sig til:
i - að veita hver öðrum tæknilega og vísindalega aðstoð með því að miðla reynslu sinni og skiptast á sérfræðingum í málum er varða fornleifaarfinn;
ii - að stuðla, innan ramma viðeigandi landslaga eða milliríkjasamninga, að skiptum á sérfræðingum í varðveislu fornleifaarfsins, einnig þeirra sem annast endurmenntun;
 

Eftirlit með beitingu samningsins (endurskoðaðs)

13. gr.
Að því er varðar þennan samning (endurskoðaðan) mun nefnd sérfræðinga, sem ráðherranefnd Evrópuráðsins skipar í samræmi við 17. gr. stofnskrár Evrópuráðsins, fylgjast með beitingu samningsins (endurskoðaðs), og meðal annars:
i - skila ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega skýrslu um stöðu mála er varða friðun fornleifaarfsins í þeim ríkjum, sem eiga aðild að samningnum (endurskoðuðum) og um framkvæmd þeirra meginreglna sem birtast í samningnum (endurskoðuðum);
ii - leggja tillögur að ráðstöfunum til framkvæmdar á ákvæðum samningsins (endurskoðaðs) fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins, þar á meðal tillögur að fjölþjóðastarfsemi, endurskoðun eða breytingum á samningnum (endurskoðuðum) og upplýsingum til almennings um tilgang samningsins (endurskoðaðs);
iii - bera fram tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins um að bjóða ríkjum, sem eru ekki aðilar að Evrópuráðinu, aðild að þessum samningi (endurskoðuðum).

Lokaákvæði

14. gr.
1. Samningur þessi (endurskoðaður) skal lagður fram til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins og önnur ríki sem eru aðilar að menningarsáttmála Evrópu, með fyrirvara um fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki. Skjöl til fullgildingar, viðurkenningar eða samþykkis skulu afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.
2. Ekkert ríki, sem er aðili að Evrópusamningnum um vernd fornleifaarfsins, sem var undirritaður í London 6. maí 1969, getur afhent skjal sitt til fullgildingar, viðurkenningar, samþykkis eða aðildar nema það hafi sagt upp téðum samningi eða segi honum upp um leið.
3. Samningur þessi (endurskoðaður) öðlast gildi sex mánuðum eftir að fjögur ríki, þar af þrjú aðildarríki Evrópuráðsins hið minnsta, hafa lýst sig samþykk því að vera bundin af samningi þessum (endurskoðuðum) í samræmi við ákvæði undanfarandi málsgreina.
4. Ef tveimur undanfarandi málsgreinum er beitt og uppsögn samningsins frá 6. maí 1969 kemur ekki til framkvæmda um leið og gildistaka samnings þessa (endurskoðaðs) getur samningsríki lýst því yfir, þegar það afhendir skjal sitt til fullgildingar, viðurkenningar eða samþykkis til vörslu, að það muni halda áfram að beita samningnum frá 6. maí 1969 fram að gildistöku samnings þessa (endurskoðaðs).
5. Samningurinn (endurskoðaður) öðlast gildi gagnvart hverju ríki, sem undirritar hann og lýsir sig síðar samþykkt því að vera bundið af honum, sex mánuðum eftir að skjal til fullgildingar, aðildar eða samþykkis er afhent til vörslu.
 

15. gr.
1. Er samningur þessi (endurskoðaður) hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins boðið ríkjum utan Evrópuráðsins og einnig Efnahagsbandalagi Evrópu að gerast aðili að samningi þessum (endurskoðuðum) með ákvörðun sem tekin er með þeim meirihluta sem kveðið er á um í d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða samþykki fulltrúa samningsríkjanna sem eiga rétt til setu í nefndinni.
2. Samningurinn (endurskoðaður) öðlast gildi gagnvart ríkjum, sem gerast aðilar, eða gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu ef það gerist aðili, sex mánuðum eftir að aðildarskjalið er afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

16. gr.
1. Hvert ríki getur við undirritun, eða þegar skjal þess til fullgildingar, viðurkenningar, samþykkis eða aðildar er afhent til vörslu, tilgreint það eða þau landsvæði sem samningur þessi (endurskoðaður) skal taka til.
2. Hvert ríki getur hvenær sem er síðar, með yfirlýsingu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, látið samning þennan (endurskoðaðan) taka til annars landsvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Samningurinn (endurskoðaður) öðlast gildi gagnvart slíku landsvæði sex mánuðum eftir að framkvæmdastjórinn fær yfirlýsinguna.
3. Afturkalla má hverja yfirlýsingu samkvæmt tveimur undanfarandi málsgreinum, að því er varðar sérhvert landsvæði sem tilgreint er í slíkri yfirlýsingu, með tilkynningu til framkvæmdastjórans. Afturköllunin öðlast gildi sex mánuðum eftir að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.
 

17. gr.
1. Hver samningsaðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum (endurskoðuðum) með tilkynningu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
2. Uppsögnin öðlast gildi sex mánuðum eftir að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.
 

18. gr.
Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins og öðrum ríkjum, sem eru aðilar að menningarsáttmála Evrópu, og hverju ríki eða Efnahagsbandalagi Evrópu, sem gerst hefur aðili eða verið boðið að gerast aðili að samningi þessum (endurskoðuðum), um:
i - hverja undirritun,
ii - afhendingu hvers skjals til fullgildingar, viðurkenningar, samþykkis eða aðildar,
iii - hvern gildistökudag samnings þessa (endurskoðaðs) í samræmi við 14. 15. og 16. gr.,
iv - hverja aðra gerð, tilkynningu eða orðsendingu varðandi samning þennan (endurskoðaðan).

Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Valletta 16. janúar 1992 í einu eintaki á ensku og frönsku sem verður afhent til vörslu í skjalasafni Evrópuráðsins og eru báðir textarnir jafngildir. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal láta hverju aðildarríki Evrópuráðsins, öðrum ríkjum, sem eru aðilar að menningarsáttmála Evrópu og hverju ríki, sem er ekki aðildarríki, eða Efnahagsbandalagi Evrópu, sem boðið er að gerast aðili að samningi þessum (endurskoðuðum), í té staðfest endurrit.

Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is