Print

Umsjón með málaflokknum:

Gunnar Bollason, verkefnisstjóri, sími 5556632,  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Minjaverðir viðkomandi svæða

Skráningarstarf
Fimmti kafli þjóðminjalaga nr. 107 frá 31. maí 2001 fjallar um kirkjugripi og minningarmörk. Í lögunum kemur meðal annars fram að forstöðumaður Fornleifaverndar ákveður í samráði við þjóðminjavörð friðlýsingu og varðveislu kirkjugripa í kirkjum landsins sem hann telur friðunarverða vegna sögulegs eða listræns gildis þeirra. Gripir hverrar kirkju sem friðlýstir eru skulu skráðir sérstaklega. Einnig er kveðið á um að forstöðumaður friðlýsi þá legsteina eða  önnur  minningarmörk í kirkjugörðum sem hann telur rétt að vernda vegna sögulegs eða listræns gildis þeirra. Samkvæmt lögunum eru kirkjugripir og minningarmörk sem tekin eru á friðlýsingarskrá friðhelg og er óheimilt að raska þeim eða spilla. Fram kemur einnig að Fornleifavernd ríkisins skuli halda nákvæmar skrár yfir minningarmörk og skulu minningarmörk í hverjum kirkjugarði skráð sérstaklega. Skrár þessar lætur Fornleifavernd í té sóknarprestum, próföstum og sóknarnefndum sem hlut eiga að máli.

 

Markmið
Kirkjugripir og minningarmörk eru oft með elstu gripum sem til eru hérlendis. Í mörgum kirkjum landsins er að finna gripi frá fyrstu öldum kristni á Íslandi svo sem kaleika og kirkjuklukkur. Fjölmörg gömul minningarmörk eru  í kirkjugörðum landsins. Nokkuð algengt er að rekast á legsteina, innlenda sem erlenda, frá fyrstu áratugum 17. aldar. Í sumum görðum er að finna steina frá síðustu fjórum öldum og má þá lesa þróun formgerða og handbragðs allt fram á okkar daga.  Skráning þessara kirkjuminja sem og eftirlit með þeim er grundvöllur varðveislu þeirra og miðlunar þessa menningarsögulega arfs til komandi kynslóða.

Meðal fjölbreyttra verkefna Fornleifaverndar ríkisins er að hafa eftirlit með kirkjugripum í kirkjum landsins sem og minningarmörkum í kirkjugörðum.  Minningarmörk eru þau verk í kirkjugörðum sem ætluð eru til að halda minningu hins látna á lofti, s.s. legsteinar, járnkrossar o.fl.  Fornleifavernd veitir einnig kirkjugarðsstjórnum eða sóknarnefndum ráðgjöf um varðveislu kirkjugripa og minningarmarka sem og annarra menningarminja.  Fornleifavernd ríkisins vinnur að skráningu minningarmarka og kirkjugripa og markar stefnu þar að lútandi. Stofnunin skal lögum samkvæmt gefa út nákvæmar skrár yfir minningarmörk í kirkjugörðum landsins sem og skrár um friðlýsta gripi hverrar kirkju.  Stofnunin fjallar um og veitir leyfi til flutninga og viðgerða eldri minningarmarka og kirkjugripa auk þess sem hún friðlýsir þessar kirkjuminjar.

Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is