Print

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna

 

Samningur um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins

 

Samþykktur á sautjánda fundi aðalþingsins í París 16. nóvember 1972

 


SAMNINGUR UM VERNDUN
MENNINGAR- OG NÁTTÚRUARFLEIFÐAR HEIMSINS

 


Aðalþing Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), sem á sautjánda fundi sínum höldnum í París frá 17. október til 21. nóvember 1972,
gerir sér ljóst að vaxandi hætta er á að menningar- og náttúruarfleifðin verði fyrir eyðileggingu, ekki einungis vegna hnignunar af eðlilegum orsökum, heldur einnig sökum breyttra félagslegra og efnahagslegra aðstæðna sem gera ástandið enn alvarlegra, enda er þar um að ræða jafnvel enn ógnvænlegri skemmdar- eða eyðileggingaröfl, 

álítur að hnignun eða hvarf hvaða þáttar menningar- eða náttúruarfleifðarinnar sem er feli í sér rýrnun á arfleifð allra þjóða heims sem beri að harma,

álítur að verndun þessarar arfleifðar af hálfu einstakra ríkja reynist oft ófullnægjandi vegna þess hve miklu þarf til að kosta og vegna þess að fjárhagsleg, vísindaleg og tæknileg úrræði eru af skornum skammti í landinu þar sem minjarnar sem á að vernda eru,

minnir á að í stofnskrá stofnunarinnar er kveðið á um að hún muni viðhalda, auka og breiða út þekkingu með því að tryggja varðveislu og verndun arfleifðar mannkynsins og gera tillögur til hlutaðeigandi þjóða um þá alþjóðasamninga sem þörf er á,

telur að gildandi alþjóðasamningar, tilmæli og ályktanir um menningar- og náttúruverðmæti sýni hve mikilvægt það er fyrir allar þjóðir heims að varðveita þessi einstöku og óbætanlegu verðmæti, óháð því hvaða þjóð þau kunna að tilheyra,

telur að einstakir þættir menningar- eða náttúruarfleifðarinnar hafi sérstakt gildi og því sé þörf á að varðveita þá sem hluta af arfleifð alls mannkyns,

álítur að með tilliti til þess hve víðtækar og alvarlegar þær hættur eru sem nú steðja að menningar- og náttúruarfleifðinni, beri öllum þjóðum heims skylda til að taka í sameiningu þátt í að vernda þá þætti hennar sem hafa sérstakt alþjóðlegt gildi, með því að veita sameiginlega aðstoð sem komi ekki í stað aðgerða af hálfu hlutaðeigandi ríkis heldur verði umtalsverð viðbót við þær,

telur að óhjákvæmilegt sé í þessu skyni að setja ný ákvæði í formi samnings þar sem komið verði á skilvirku sameiginlegu kerfi til verndar menningar- og náttúruarfleifð er hefur sérstakt alþjóðlegt gildi, sem sé skipulagt til frambúðar í samræmi við nútímalegar vísindaaðferðir og

ákvað á sextánda fundi sínum að um þetta mál skyldi gerður alþjóðlegur samningur,

samþykkir í dag hinn 16. nóvember 1972 samning þennan.
 

I.SKILGREININGAR Á MENNINGAR- OG NÁTTÚRUARFLEIFÐ
1. gr.
Í þessum samningi skal eftirfarandi talið til ,,menningararfleifðar``:
minnisvarðar: verk á sviði byggingarlistar, höggmyndir og málverk, hvers kyns fornminjar, áletranir, hellahíbýli og samsetning þátta sem hafa sérstakt alþjóðlegt gildi frá sögulegu, listrænu eða vísindalegu sjónarmiði;
þyrpingar bygginga: þyrpingar aðskilinna eða tengdra bygginga, sem vegna byggingarlistar, heildstæðs yfirbragðs eða hvernig þær falla að landslagi, hafa sérstakt alþjóðlegt gildi frá sögulegu, listrænu eða vísindalegu sjónarmiði;
staðir: mannvirki eða sameiginleg verk manna og náttúru, og svæði með fornum menjum sem hafa sérstakt alþjóðlegt gildi frá sögulegu, fagurfræðilegu, þjóðfræðilegu eða mannfræðilegu sjónarmiði.
 

2. gr.
Í þessum samningi skal eftirfarandi talið til ,,náttúruarfleifðar``:
náttúrufyrirbæri sem samanstanda af eðlisfræðilegum og lífrænum myndunum eða þyrpingum slíkra myndana sem hafa sérstakt alþjóðlegt gildi frá fagurfræðilegu eða vísindalegu sjónarmiði;
jarðfræðilegar eða eðlislandfræðilegar myndanir, og vel afmörkuð svæði sem eru heimkynni dýra- og plöntutegunda í útrýmingarhættu, sem hafa sérstakt alþjóðlegt gildi frá sjónarmiði vísinda eða náttúruverndar;
náttúruvætti eða vel afmörkuð svæði í náttúrunni sem hafa sérstakt alþjóðlegt gildi frá sjónarmiði vísinda, náttúruverndar eða náttúrufegurðar.

3. gr.
Það kemur í hlut hvers aðildarríkis að þessum samningi um sig að skilgreina og afmarka hin ýmsu verðmæti sem er að finna á yfirráðasvæði þess og getið er í 1. og 2. gr. hér að framan.

II.INNLEND VERNDUN OG ALÞJÓÐLEG VERNDUN MENNINGAR- OG NÁTTÚRUARFLEIFÐAR
4. gr.
Hvert aðildarríki að þessum samningi um sig viðurkennir að sú skylda hvíli fyrst og fremst á því sjálfu að skilgreina, vernda, varðveita, kynna og miðla til komandi kynslóða menningar- og náttúruarfleifð þeirri sem um getur í 1. og 2. gr. og er á yfirráðasvæði þess. Það skal gera allt sem í valdi þess stendur í þessu skyni, af eigin rammleik að því marki sem eigin úrræði leyfa, en einnig, þar sem við á, með alþjóðlegri aðstoð og samvinnu, sem kann að vera fáanleg, einkum á sviði fjármála, lista, vísinda og tækni.
 

5. gr.
Til þess að tryggja að gerðar verði áhrifaríkar og virkar ráðstafanir til að vernda, varðveita og kynna menningar- og náttúruarfleifð sem er á yfirráðasvæði aðildarríkis að þessum samningi skal það af fremsta megni, og á þann hátt sem best á við í hverju landi um sig, leitast við:
1. að taka upp almenna stefnu er miðar að því að veita menningar- og náttúruarfleifðinni ákveðið hlutverk í samfélaginu og að fella verndun þeirrar arfleifðar inn í ramma víðtækra áætlana;
2. að koma á fót á yfirráðasvæðum sínum, ef því er ekki þegar til að dreifa, einni eða fleiri stofnunum sem hafi það hlutverk að vernda, varðveita og kynna menningar- og náttúruarfleifðina og hafi á að skipa hæfu starfsliði og nægilegt bolmagn til að sinna störfum sínum;
3. að þróa vísindalegar og tæknilegar athuganir og rannsóknir og koma á vinnuaðferðum sem geri hlutaðeigandi ríki kleift að bregðast við hverju því er ógnað getur menningar- eða náttúruarfleifð þess;
4. að gera viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, vísinda, tækni, stjórnsýslu og fjármála til að unnt sé að skilgreina, vernda, varðveita, kynna og endurbæta þessa arfleifð; og
5. að stuðla að því að stofnaðar verði eða þróaðar miðstöðvar, á lands- eða héraðsvísu, er annist kennslu og þjálfun í verndun, varðveislu og kynningu á menningar- og náttúruarfleifðinni, og að hvetja til vísindarannsókna á þessu sviði.
6. gr.
1. Jafnframt því að virða að fullu fullveldi þeirra ríkja, sem hafa á yfirráðasvæði sínu menningar- og náttúruarfleifð samkvæmt 1. og 2. gr., og að virtum þeim eignarrétti sem kveðið er á um í landslögum þeirra, viðurkenna aðildarríkin að þessum samningi að þessi arfleifð sé alþjóðleg og að sú skylda hvíli á þjóðum heims að vinna í sameiningu að verndun hennar.
2. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess, í samræmi við ákvæði þessa samnings, að leggja sitt af mörkum við að skilgreina, vernda, varðveita og kynna menningar- og náttúruarfleifð þá sem um getur í 2. og 4. mgr. 11 gr. fari ríki, er hafa yfir henni að ráða, fram á það.
3. Hvert aðildarríki að þessum samningi um sig skuldbindur sig til þess að gera ekki vísvitandi neinar þær ráðstafanir sem geta beint eða óbeint skaðað menningar- eða náttúruarfleifð þá sem um getur í 1. og 2. gr. og er á yfirráðasvæði annarra aðildarríkja að þessum samningi.

7. gr.
Að því er þennan samning varðar ber að líta svo á að alþjóðleg verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins felist í því að komið sé á alþjóðlegu kerfi samvinnu og aðstoðar er miði að því að styðja aðildarríki að þessum samningi í viðleitni þeirra til þess að varðveita og skilgreina þessa arfleifð.

III.MILLIRÍKJANEFND UM VERNDUN MENNINGAR- OG NÁTTÚRUARFLEIFÐAR HEIMSINS
8. gr.
1. Með þessum samningi er komið á fót, innan vébanda Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, milliríkjanefnd um verndun menningar- og náttúruarfleifðar sem hefur til að bera sérstakt alþjóðlegt gildi, kölluð ,,nefnd um arfleifð þjóða heims``. Hún skal skipuð 15 aðildarríkjum að þessum samningi, sem valin skulu af aðildarríkjunum á allsherjarþingi, meðan á reglulegum fundi aðalþings Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna stendur. Aðildarríkjum er nefndina skipa skal fjölgað í 21 frá þeim degi er reglulegur fundur aðalþingsins hefst eftir að þessi samningur hefur öðlast gildi gagnvart að minnsta kosti 40 ríkjum.
2. Með kosningu nefndarmanna skal tryggja réttláta dreifingu fulltrúa frá hinum ýmsu heimshlutum og menningarsvæðum.
3. Fundi nefndarinnar mega sitja, sem ráðgjafar, einn fulltrúi Alþjóðamiðstöðvarinnar fyrir rannsóknir á varðveislu og endurgerð menningarverðmæta (Rómarmiðstöðvarinnar), einn fulltrúi Alþjóðaráðsins um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS) og einn fulltrúi Alþjóðasambandsins um varðveislu náttúrunnar og auðlinda hennar (IUCN), en auk þess geta fulltrúar annarra milliríkjastofnana eða óopinberra stofnana, sem hafa svipuð markmið, sótt fundi nefndarinnar sem ráðgjafar, ef aðildarríkin að þessum samningi óska þess á allsherjarþingi sem kemur saman á meðan reglulegir fundir aðalþings Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru haldnir.
 

9. gr.
1. Starfstímabil ríkja sem eiga sæti í nefndinni um arfleifð þjóða heims varir frá lokum reglulegs fundar aðalþingsins, sem þau eru kjörin á, og til loka reglulegs fundar þriðja aðalþings þar á eftir.
2. Starfstímabili þriðjungs þeirra nefndarmanna sem eru tilnefndir við fyrstu kosningu skal þó ljúka við lok fyrsta reglulega fundar næsta aðalþings eftir að þeir voru kjörnir og starfstímabili annars þriðjungs þeirra nefndarmanna sem eru tilnefndir við sama tækifæri skal ljúka við lok annars reglulegs fundar næsta aðalþings eftir að þeir voru kjörnir. Nöfn þessara nefndarmanna skulu valin með hlutkesti af forseta aðalþings Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna þegar fyrstu kosningu er lokið.
3. Aðildarríki sem eiga sæti í nefndinni skulu velja sér fulltrúa með fagþekkingu á sviði menningar- eða náttúruarfleifðar.
 

10. gr.
1. Nefndin um arfleifð þjóða heims setur sér starfsreglur.
2. Nefndin getur hvenær sem er boðið opinberum stofnunum, einkareknum stofnunum eða einstaklingum að sitja fundi sína til samráðs um tiltekin álitaefni.
3. Nefndin getur fengið til liðs við sig slíka ráðgefandi aðila eftir því sem hún telur þörf á til að geta innt störf sín af hendi.

11. gr.
1. Öll aðildarríkin að þessum samningi skulu, að því marki sem unnt er, leggja fyrir nefndina um arfleifð þjóða heims yfirlitsskrá yfir þau verðmæti á yfirráðasvæði sínu sem teljast til menningar- eða náttúruarfleifðar og eiga heima í skránni sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar. Þessari yfirlitsskrá, sem ekki ber að líta á sem tæmandi, skulu fylgja upplýsingar um hvar umrædd verðmæti er að finna og um mikilvægi þeirra.
2. Á grundvelli yfirlitsskráa sem ríkin leggja fram samkvæmt 1. mgr. skal nefndin færa, halda við og birta, undir heitinu "skrá yfir arfleifð þjóða heims", skrá yfir þau verðmæti sem teljast hluti af menningar- og náttúruarfleifðinni, samkvæmt skilgreiningu 1. og 2. gr. þessa samnings, og hún telur að hafi sérstakt alþjóðlegt gildi samkvæmt þeim viðmiðunum er hún á að hafa sett sér. Uppfærðri skrá skal dreift eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.
3. Skráning verðmæta í skrána yfir arfleifð þjóða heims krefst samþykkis hlutaðeigandi ríkis. Skráning verðmæta sem eru á yfirráðasvæði, í lögsögu eða á svæði sem fleiri en eitt ríki gera tilkall til skal í engu hafa áhrif á rétt deiluaðila.
4. Eftir því sem aðstæður krefjast skal nefndin færa, halda við og birta, undir heitinu ,,skrá yfir alþjóðlega arfleifð í hættu``, skrá yfir þau verðmæti sem koma fyrir í skránni yfir arfleifð þjóða heims, og gera þarf stórfelldar aðgerðir á til að vernda þau, og sem farið hefur verið fram á aðstoð við í samræmi við ákvæði þessa samnings. Í skránni skal koma fram áætlun um kostnað við slíkar aðgerðir. Skráin má einungis taka til verðmæta sem eru hluti af þeirri menningar- eða náttúruarfleifð sem alvarlegar og sérstakar hættur steðja að, til að mynda hætta á að þau hverfi vegna hraðvirkrar eyðingar, vegna stórframkvæmda á vegum einkaaðila eða hins opinbera, vegna hraðrar uppbyggingar borga eða ferðamannastaða; eyðileggingar sem stafar af breyttri notkun eða eignarhaldi lands; af stórfelldum breytingum af ókunnum orsökum; af vanhirðu, hver svo sem ástæða hennar er; af því að hernaðarátök brjótast út eða þau eru yfirvofandi; af náttúruhamförum og öðrum áföllum; af alvarlegum eldsvoðum, jarðskjálftum og skriðuföllum; eldgosum; breytingum á vatnshæð, flóðum og flóðbylgjum. Nefndin getur hvenær sem er, ef mikið liggur við, tekið upp nýja færslu í skrána yfir alþjóðlega arfleifð í hættu og birt þá skráningu umsvifalaust.
5. Nefndin skal skilgreina þær viðmiðanir sem verða notaðar til að ákvarða hvort menningar- eða náttúruarfleifð verði tekin upp í aðra hvora þeirra skráa sem um getur í 2. og 4. mgr. þessarar greinar.
6. Áður en hafnað er beiðni um skráningu í aðra hvora skrána sem nefndar eru í 2. og 4. mgr. þessarar greinar skal nefndin ráðgast við það aðildarríki sem hefur yfir því svæði að ráða þar sem umrædd menningar- eða náttúruarfleifð er.
7. Nefndin skal, með samþykki hlutaðeigandi ríkja, samræma og stuðla að því að fram fari nauðsynlegar athuganir og rannsóknir til að unnt sé að taka saman þær skrár sem um getur í 2. og 4. mgr. þessarar greinar.
 

12. gr.
Komi í ljós að verðmæti, sem tilheyrir menningar- eða náttúruarfleifðinni, hefur ekki verið skráð í aðra hvora skrána sem um getur í 2. og 4. mgr. 11. gr. skal það ekki með neinu móti lagt út á þann veg að það hafi ekki til að bera sérstakt alþjóðlegt gildi í öðru tilliti en því sem fram kemur með skráningu í þessar skrár.

13. gr.
1. Nefndin um arfleifð þjóða heims skal taka á móti og rannsaka beiðnir aðildarríkjanna að þessum samningi um alþjóðlega aðstoð varðandi verðmæti sem eru hluti af menningar- eða náttúruarfleifð, sem er að finna á yfirráðasvæðum þeirra, og eru skráð eða kunna að fullnægja skilyrðum um skráningu samkvæmt 2. og 4. mgr. 11. gr. Tilgangur slíkrar beiðni getur verið sá að tryggja verndun, varðveislu, kynningu eða endurbætur á slíkum verðmætum.
2. Beiðnir um alþjóðlega aðstoð samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar geta einnig varðað skilgreiningu á menningar- eða náttúruarfleifð með tilliti til 1. og 2. gr. hafi forkannanir sýnt að frekari rannsóknir eigi rétt á sér.
3. Nefndin skal ákveða hvernig brugðist skuli við þessum beiðnum, ákvarða eftir atvikum eðli og umfang þeirrar aðstoðar sem hún lætur í té, og heimila, fyrir sína hönd, að komið verði á nauðsynlegri skipan gagnvart hlutaðeigandi ríkisstjórn.
4. Nefndin skal ákveða forgangsröðun fyrir störf sín. Hún skal þar hafa í huga hversu mikilvæg þau verðmæti sem til stendur að vernda eru fyrir menningar- og náttúruarfleifð þjóða heims, nauðsyn þess að veita alþjóðlega aðstoð vegna þeirra verðmæta sem helst eru til vitnis um náttúrulegt umhverfi eða snilli og sögu þjóða heims, hversu brýnt fyrirhugað verk er, hvaða úrræði eru tiltæk þeim ríkjum sem hafa umrædd verðmæti á sínum yfirráðasvæðum og ekki síst að hvaða marki þau eru fær um að varðveita slík verðmæti af eigin rammleik.
5. Nefndin skal færa, halda við og birta skrá yfir verðmæti sem alþjóðleg aðstoð hefur verið veitt til.
6. Nefndin skal ákveða hvernig farið skuli með fjármuni þess sjóðs sem stofna ber samkvæmt 15. gr. þessa samnings. Hún skal leita leiða til þess að auka þessa fjármuni og leita allra úrræða í því skyni.
7. Nefndin skal eiga samvinnu við alþjóðastofnanir og stofnanir einstakra ríkja, bæði opinberar og óopinberar, er hafa svipuð markmið og sett eru fram með þessum samningi. Við framkvæmd áætlana sinna og verkefna er nefndinni heimilt að leita til slíkra stofnana, hér er einkum átt við Alþjóðamiðstöðina fyrir rannsóknir á varðveislu og endurgerð menningarverðmæta (Rómarmiðstöðina), Alþjóðaráðið um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS) og Alþjóðasambandið um varðveislu náttúrunnar og auðlinda hennar (IUCN), sem og til opinberra stofnana, einkastofnana og einstaklinga.
8. Ákvarðanir nefndarinnar skulu teknar með tveimur þriðju hlutum atkvæða þeirra nefndarmanna sem eru viðstaddir og greiða atkvæði. Fundir hennar eru lögmætir ef meirihluti nefndarmanna er viðstaddur.

14. gr.
1. Nefndin um arfleifð þjóða heims skal hafa sér til fulltingis skrifstofu sem framkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sér um að manna.
2. Framkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna skal, með því að nýta eins og kostur er þjónustu Alþjóðamiðstöðvarinnar fyrir rannsóknir á varðveislu og endurgerð menningarverðmæta (Rómarmiðstöðvarinnar), Alþjóðaráðsins um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS) og Alþjóðasambandsins um varðveislu náttúrunnar og auðlinda hennar (IUCN), eftir því sem umboð þeirra og geta leyfir, útbúa gögn nefndarinnar og dagskrá funda og sjá til þess að ákvörðunum hennar sé framfylgt.
 

IV.SJÓÐUR TIL VERNDAR MENNINGAR- OG NÁTTÚRUARFLEIFÐ HEIMSINS

15. gr.
1. Hér með er settur á stofn sjóður til verndar þeirri menningar- og náttúruarfleifð heimsins sem hefur sérstakt alþjóðlegt gildi og kallast hann ,,alþjóðlegi arfleifðarsjóðurinn``.
2. Sjóðurinn skal vera vörslusjóður í samræmi við ákvæði fjárhagsreglugerðar Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
3. Tekjustofnar sjóðsins skulu vera:
1. skylduframlög og frjáls framlög aðildarríkja að þessum samningi;
2. framlög, gjafir eða dánargjafir sem kunna að koma frá:
1. öðrum ríkjum,
2. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, einkum Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna eða öðrum milliríkjastofnunum,
3. opinberum stofnunum, einkareknum stofnunum eða einstaklingum;
3. vextir af fjármunum sjóðsins;
4. fé sem fengið er með söfnun og tekjur af fjáröflun sem skipulögð er í þágu sjóðsins; og
5. allir aðrir fjármunir samkvæmt heimild í sjóðsreglum sem nefndin um arfleifð þjóða heims semur.
4. Framlög til sjóðsins og aðra aðstoð sem nefndinni er látin í té skal einungis nota til þeirra verkefna sem nefndin tilgreinir. Nefndinni er heimilt að þiggja framlög sem einungis skal nota í þágu ákveðinnar áætlunar eða verkefnis, enda hafi nefndin áform um slíka áætlun eða verkefni. Ekki er heimilt að setja neins konar pólitísk skilyrði í tengslum við framlög til sjóðsins.
 

16. gr.
1. Án þess að það hafi áhrif á viðbótarframlög sem veitt eru af fúsum og frjálsum vilja, skuldbinda aðildarríkin að þessum samningi sig til að greiða reglulega, á tveggja ára fresti, í alþjóðlega arfleifðarsjóðinn framlög, sem skulu ákveðin sem jafn hundraðshluti fyrir öll ríki, og skal fjárhæð þeirra ákveðin á allsherjarþingi aðildarríkja að þessum samningi er skal haldið meðan á fundum aðalþings Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna stendur. Þessi ákvörðun allsherjarþingsins skal tekin með meirihluta atkvæða þeirra ríkja sem sækja fundinn og greiða atkvæði og hafa ekki gefið yfirlýsinguna sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar. Skylduframlag aðildarríkis að þessum samningi skal aldrei vera hærra en 1% af framlagi þess til reglulegrar fjárhagsáætlunar Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
2. Engu að síður getur hvert það ríki sem um getur í 31. eða 32. gr. þessa samnings lýst yfir því, þegar það leggur fram fullgildingar-, staðfestingar- eða aðildarskjöl sín, að það sé ekki bundið af ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar.
3. Aðildarríki að þessum samningi, sem hefur gefið yfirlýsinguna sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, getur hvenær sem er afturkallað hana með því að tilkynna það framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Afturköllun yfirlýsingarinnar skal þó ekki taka gildi hvað snertir skylduframlag það, sem ríkinu ber að inna af hendi, fyrr en að næsta allsherjarþingi aðildarríkjanna að þessum samningi kemur.
4. Eigi nefndin að geta skipulagt störf sín þannig að gagn sé að verða framlög aðildarríkjanna, sem hafa gefið yfirlýsingu samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar, að berast reglulega, eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti, og skulu þau ekki vera lægri en þau framlög sem þeim hefði borið að greiða hefðu þau verið bundin af ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar.
5. Aðildarríki að þessum samningi sem er í vanskilum með greiðslu á skylduframlagi eða frjálsu framlagi sínu fyrir yfirstandandi ár og næstliðið almanaksár er ekki gjaldgengt sem aðili að nefndinni um arfleifð þjóða heims; þetta ákvæði á þó ekki við þegar kosið er í fyrsta sinn.
Starfstímabili ríkis sem er þegar orðið aðili að nefndinni og þannig er ástatt um skal ljúka þegar kosningarnar sem kveðið er á um 1. mgr. 8. gr. þessa samnings fara fram.

17. gr.
Aðildarríkin að þessum samningi skulu íhuga eða stuðla að því að komið verið á fót opinberum og einkareknum stofnunum eða samtökum er hafi það að markmiði að afla fjárframlaga til að vernda menningar- og náttúruarfleifðina, svo sem hún er skilgreind í 1. og 2. gr. þessa samnings.
 

18. gr.
Aðildarríkin að þessum samningi skulu leggja sitt af mörkum til alþjóðlegra fjáröflunarherferða sem eru skipulagðar í þágu alþjóðlega arfleifðarsjóðsins undir forystu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þau skulu í því skyni greiða fyrir söfnunum sem stofnanir er um ræðir í 3. mgr. 15. gr. standa fyrir.
 

V.AÐSTÆÐUR OG FYRIRKOMULAG ALÞJÓÐLEGRAR AÐSTOÐAR
19. gr.
Aðildarríki að þessum samningi getur farið fram á alþjóðlega aðstoð vegna verðmæta sem eru hluti af menningar- eða náttúruarfleifð á yfirráðasvæði þess er hefur til að bera sérstakt alþjóðlegt gildi. Ríkið skal leggja fram með beiðni sinni upplýsingar og gögn samkvæmt 21. gr. sem það býr yfir og geta auðveldað nefndinni að komast að niðurstöðu.
20. gr.
Með fyrirvara um ákvæði 2. mgr. 13. gr., c-liðar 22. gr. og 23. gr. má einungis veita alþjóðlega aðstoð samkvæmt þessum samningi vegna verðmæta sem eru hluti af þeirri menningar- og náttúruarfleifð sem nefndin um arfleifð þjóða heims hefur úrskurðað, eða kann að úrskurða, að eigi heima í annarri hvorri þeirra skráa sem um getur í 2. og 4. mgr. 11. gr.
21. gr.
1. Nefndin um arfleifð þjóða heims skal ákveða hvernig farið skuli með þær beiðnir sem henni berast um alþjóðlega aðstoð og tilgreina hvað eigi að koma fram í beiðninni, en þar þyrfti að koma fram lýsing á fyrirhugaðri aðgerð, þeirri vinnu sem inna þarf af hendi, áætluðum kostnaði við hana, hversu brýn aðgerðin er og hvaða ástæður liggja til þess að fjármunir sem eru tiltækir í ríkinu sem fer fram á aðstoð hrökkva ekki til að greiða allan kostnað. Slíkum umsóknum skulu fylgja skýrslur sérfræðinga hvenær sem þess er kostur.
2. Beiðnir vegna stórslysa eða náttúruhamfara skulu, með tilliti til þess hve brýnt getur verið að skjótt sé brugðist við, þegar hljóta forgangsumfjöllun hjá nefndinni, og skal nefndin hafa til ráðstöfunar varasjóð er grípa má til í slíkum tilvikum.
3. Nefndin skal áður en hún tekur ákvörðun gera þær kannanir og leita þeirrar ráðgjafar sem hún telur þörf á.
22. gr.
Aðstoðin, sem nefndin um arfleifð þjóða heims lætur í té, getur verið sem hér segir:
1. kannanir varðandi listræn, vísindaleg og tæknileg vandkvæði er upp kunna að koma í tengslum við verndun, varðveislu, kynningu og endurbætur á menningar- og náttúruarfleifðinni, eins og hún er skilgreind í 2. og 4. mgr. 11. gr. þessa samnings;
2. útvegun sérfræðinga, tæknimanna og faglærðra verkamanna til þess að tryggja að samþykkt verk sé rétt unnið;
3. þjálfun starfsliðs og sérfræðinga á öllum stigum að því er varðar skilgreiningu, verndun, varðveislu, kynningu og endurbætur á menningar- og náttúruarfleifðinni;
4. útvegun tækjabúnaðar sem hlutaðeigandi ríki á ekki í eigu sinni eða getur ekki útvegað;
5. vaxtalaus lán eða lán með lágum vöxtum sem kunna að vera til langs tíma;
6. í sérstökum tilvikum og af sérstökum ástæðum, óendurkræfar niðurgreiðslur.
23. gr.
Nefndin um arfleifð þjóða heims getur einnig veitt alþjóðlega aðstoð til lands- eða svæðismiðstöðva með það í huga að þjálfa starfslið og sérfræðinga á öllum stigum með tilliti til skilgreiningar, verndunar, varðveislu, kynningar og endurbóta á menningar- og náttúruarfleifðinni.
24. gr.
Áður en veitt er víðtæk alþjóðleg aðstoð skulu fara fram ítarlegar vísindalegar, fjárhagslegar og tæknilegar athuganir. Við þessar athuganir skal byggt á nýjustu tækni varðandi verndun, varðveislu, kynningu og endurbætur á menningar- og náttúruarfleifðinni og skulu þær vera í samræmi við markmið þessa samnings. Athuganirnar skulu einnig beinast að því að finna leiðir til að nýta þá fjármuni sem eru fyrir hendi í hlutaðeigandi ríki á skynsamlegan hátt.
25. gr.
Það skal vera meginregla að alþjóðleg aðstoð standi aðeins undir hluta kostnaðar við þau verk sem inna þarf af hendi. Framlag ríkisins sem nýtur alþjóðlegrar aðstoðar skal vera verulegur hluti þeirra fjármuna sem varið er til tiltekinnar áætlunar eða verkefnis, nema það hafi ekki bolmagn til þess.
26. gr.
Nefndin um arfleifð þjóða heims og viðtökuríkið skulu skilgreina í samkomulagi sem þau gera með sér hvaða aðstæður skuli ríkja við framkvæmd áætlunar eða verkefnis sem hlýtur alþjóðlega aðstoð samkvæmt þessum samningi. Ríkið sem hlýtur alþjóðlega aðstoð af þessu tagi skuldbindur sig til að halda áfram að vernda, varðveita og kynna þau verðmæti sem þannig eru tryggð, samkvæmt skilmálum sem samkomulagið kveður á um.

VI.ÁÆTLANIR Á SVIÐI MENNTUNAR
27. gr.
1. Aðildarríkin að þessum samningi skulu leitast við, með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal með menntunar- og upplýsingaáætlunum, að auka skilning og virðingu þjóða sinna fyrir menningar- og náttúruarfleifðinni eins og hún er skilgreind í 1. og 2. gr. samningsins.
2. Þau skulu sjá um að uppfræða almenning um aðalatriði þeirrar hættu sem steðjar að þessari arfleifð og um aðgerðir sem eru gerðar til samræmis við þennan samning.
28. gr.
Aðildarríki að þessum samningi sem hljóta alþjóðlega aðstoð samkvæmt samningnum skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að kynna mikilvægi þeirra verðmæta sem aðstoð hefur verið veitt til og hvaða hlutverki slík aðstoð hefur gegnt.
 

VII.SKÝRSLUR
29. gr.
1. Í skýrslum sem aðildarríkin leggja fyrir aðalþing Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, á þeim tíma og með þeim hætti sem hún ákveður, skulu þau veita upplýsingar um ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu sem þau hafa gert svo og aðrar aðgerðir sem þau hafa staðið að til þess að hrinda þessum samningi í framkvæmd, ásamt nánari upplýsingum um þá reynslu sem þau hafa öðlast á þessu sviði.
2. Þessar skýrslur skulu kynntar nefndinni um arfleifð þjóða heims.
3. Nefndin skal leggja fram skýrslu um störf sín á öllum reglulegum fundum aðalþings Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

VIII.LOKAÁKVÆÐI
30. gr.
Samningur þessi er gerður á arabísku, ensku, frönsku, rússnesku og spænsku og eru allir textarnir fimm jafngildir.
31. gr.
1. Samningur þessi er háður fullgildingu eða staðfestingu aðildarríkja Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna í samræmi við stjórnskipulegar meðferðarreglur þeirra.
2. Fullgildingar- eða staðfestingarskjölum skal komið í vörslu hjá framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
32. gr.
1. Aðild að samningi þessum er opin öllum ríkjum sem ekki eru aðilar að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna en boðið er af aðalþingi stofnunarinnar að gerast aðilar að honum.
2. Aðild tekur gildi þegar aðildarskjali hefur verið komið í vörslu hjá framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
33. gr.
Samningur þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir þann dag er tuttugasta fullgildingar-, staðfestingar- eða aðildarskjali hefur verið komið í vörslu, en aðeins gagnvart þeim ríkjum sem hafa komið fullgildingar-, staðfestingar- eða aðildarskjölum sínum í vörslu á þeim degi eða fyrr. Hann öðlast gildi gagnvart öðrum ríkjum þremur mánuðum eftir að þau hafa komið fullgildingar-, staðfestingar- eða aðildarskjali sínu í vörslu.
34. gr.
Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um þau aðildarríki að þessum samningi sem eru sambandsríki eða hafa stjórnkerfi sem ekki lýtur einni heildarstjórn:
1. hvað varðar ákvæði þessa samnings, sem að því er framkvæmd varðar falla undir lögsögu sambandslöggjafarvalds eða miðstýrðs löggjafarvalds, skulu skuldbindingar sambandsstjórnar eða miðstjórnar vera hinar sömu og aðildarríkja sem ekki eru sambandsríki;
2. hvað varðar ákvæði þessa samnings, sem að því er framkvæmd varðar falla undir lögsögu einstakra fylkja í sambandsríki, landa sjálfstjórnarsvæða eða kantóna, sem stjórnskipan sambandsins skuldbindur ekki til að gera réttarráðstafanir, skal sambandsstjórnin kynna lögbærum yfirvöldum slíkra fylkja, landa sjálfstjórnarsvæða eða kantóna áðurgreind ákvæði og mælast til þess að þau verði samþykkt.
35. gr.
1. Hvert aðildarríki að þessum samningi um sig getur sagt samningnum upp.
2. Uppsögn skal tilkynnt skriflega og afhent framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
3. Uppsögn skal taka gildi tólf mánuðum eftir viðtöku uppsagnarskjals. Hún hefur ekki áhrif á fjárhagslegar skuldbindingar uppsagnarríkisins fyrr en á þeim degi sem hún kemur til framkvæmda.
36. gr.
Framkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna aðildarríkjum stofnunarinnar, þeim ríkjum utan stofnunarinnar sem um getur í 32. gr. og Sameinuðu þjóðunum um afhendingu allra fullgildingar-, staðfestingar- og aðildarskjala sem kveðið er á um í 31. og 32. gr., svo og uppsagnir þær sem kveðið er á um í 35. gr.
37. gr.
1. Samning þennan má endurskoða á aðalþingi Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Aðeins þau ríki sem gerast aðilar að endurskoðunarsamingnum skulu þó bundin af slíkri endurskoðun.
2. Ef aðalþingið samþykkir nýjan samning til endurskoðunar á þessum samningi í heild eða að hluta, skal samningur þessi, nema hinn nýi samningur kveði á um annað, hætta að vera opinn til fullgildingar, staðfestingar eða aðildar frá þeim degi að telja er hinn nýi endurskoðunarsamningur öðlast gildi.
38. gr.
Í samræmi við 102. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna skal samningur þessi skrásettur hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna að beiðni framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Gjört í París hinn 23. nóvember 1972, í tveimur frumeintökum undirrituðum af forseta sautjánda fundar aðalþingsins og framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem skulu falin skjalasafni Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna til vörslu, og skulu staðfest endurrit þeirra afhent öllum ríkjunum sem um getur í 31. og 32. gr. sem og Sameinuðu þjóðunum.

Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is