Þú ert hér:Forsíða»Upplýsingar»Fagaðilar»Siðareglur FÍF»Siðareglur FÍF

Siðareglur FÍF

Print

Siðareglum þessum er ætlað að vera fornleifafræðingum til viðmiðunar um sjálfsögun og siðferðileg álitamál er upp kunna að koma í störfum þeirra í almannaþágu og við fornleifarannsóknir.

Viðfangsefni fornleifafræðinnar er að rannsaka ummerki genginna kynslóða. Fornleifafræði eru stunduð meðal annars með uppgröftum og beinast að því að rannsaka og túlka leifar sem menning fyrri alda hefur látið eftir sig.

Fornleifar eru sameiginlegur menningararfur þjóðarinnar. Þær eru viðkvæmar og sérstakar að því leyti að þeim er hætt við að skaddast eða eyðileggjast við rannsókn.

 Sú þekking á horfnum samfélögum sem fæst við rannsóknir á fornminjum er sömuleiðis menningarleg sameign þjóðarinnar og ætti að vera öllum aðgengileg. Fornleifafræðingum ber því skylda til að kynna og birta niðurstöður rannsókna sinna.

Á fornleifafræðingum hvílir sú skylda að stuðla að varðveislu fornminja og haga rannsóknum sínum á þann veg að þær valdi sem minnstu raski en veiti sem áreiðanlegastar upplýsingar.

Með því að gangast undir siðareglurnar viðurkenna fornleifafræðingar þessar skyldur. Með því að haga störfum sínum í samræmi við reglurnar sýna þeir faglega hæfni og siðferðilega ábyrgð.

Í reglunum er lýst vinnubrögðum sem ætlast er til að félagsmenn hafi í heiðri. Verði misbrestur á því getur stjórn félagsins brugðist við með því að áminna þá. Við ítrekuð brot getur stjórnin vikið þeim tímabundið eða endanlega úr félaginu.

GRUNDVALLARREGLA 1

Fornleifafræðingar skulu uppfylla ströngustu kröfur um faglega og siðferðilega ábyrgð í starfi sínu.

1.1 Fornleifafræðingar skulu sinna starfi sínu með þeim hætti að þeir varpi hvorki rýrð á fagið né félagið.

1.2 Fornleifafræðingum ber að kynna niðurstöður fornleifafræðilegra rannsókna á ábyrgan og heiðarlegan hátt og forðast ýkjur og villandi staðhæfingar um fornleifafræðileg málefni.

1.3 Fornleifafræðingum ber að varast að veita faglega ráðgjöf, eða tjá sig opinberlega eða fyrir dómstóli um fornleifafræðileg málefni, nema þeir hafi áður kynnt sér þau gaumgæfilega.

1.4 Fornleifafræðingar skulu forðast að taka að sér fornleifarannsóknir sem þeir eru ekki færir um að sinna. Þeir skulu ávallt gæta þess að undirbúningur fornleifarannsóknar sé fullnægjandi og að þeir njóti nauðsynlegrar aðstoðar og aðstöðu.

1.5 Fornleifafræðingum ber að sýna vinnu annarra fornleifafræðinga tilhlýðilega virðingu og þeir mega ekki eigna sér verk þeirra eða hugmyndir. Forðast skulu þeir að taka þátt í nokkru því athæfi er skaðað gæti orðspor annarra fornleifafræðinga.

1.6 Fornleifafræðingum ber að kynna sér lög og reglur sem gilda um störf þeirra og hlíta þeim í hvívetna.

1.7 Fornleifafræðingar skulu í starfi sínu forðast óheiðarleika, svik, blekkingar og rangfærslur. Ekki skulu þeir vísvitandi leggja nafn sitt við neinar athafnir af því tagi og ekki heldur umbera þær hjá starfsfélögum sínum.

1.8 Ekki mega fornleifafræðingar í starfi sínu bjóða né þiggja neitt það sem túlka mætti sem mútur.

1.9 Fornleifafræðingar mega ekki brjóta trúnað við þá sem veitt hafa þeim upplýsingar sem leynt eiga að fara nema skv. dómsúrskurði. Ekki mega þeir heldur misnota slíkar upplýsingar sjálfum sér eða öðrum til framdráttar.

1.10 Fornleifafræðingum ber að virða lögmæta hagsmuni fólks sem tengist þeirri sögulegu fortíð sem verið er að rannsaka (sjá athugasemdir við 1.10).

1.11 Fornleifafræðingar skulu leggja sitt af mörkum til þess að siðareglur þessar séu almennt virtar af félagsmönnum og stuðla að því að aðrir fornleifafræðingar taki þær upp.  

GRUNDVALLARREGLA 2

Fornleifafræðingum ber skylda til að stuðla að verndun fornminja.

2.1 Fornleifafræðingar skulu vinna að varðveislu fornminja (minjastaða)? á þann hátt að unnt sé að skoða þær og njóta þeirra í nútíð og framtíð. Verði slíkri varðveislu ekki við komið ber þeim skylda til að tryggja að saga minjanna sé varðveitt með skráningu og útgáfu upplýsinga og rannsóknarniðurstaðna.

2.2 Hafi rannsókn fornminja (minjastaðar) í för með sér að minjar fari forgörðum skal stjórnandi hennar sjá til þess að eyðileggingin verði eins lítil og mögulegt er og takmarkist við það sem nauðsynlegt er til að markmið rannsóknarinnar náist. Markmiðin verða að vera nægilega mikilvæg til að réttlæta þá röskun sem rannsóknin hefur í för með sér (sjá athugasemdir við 2.2). 

GRUNDVALLARREGLA 3

Fornleifafræðingum ber að haga rannsóknum sínum á þann veg að þær skili sem áreiðanlegustum upplýsingum um viðfangsefnið. Þeir skulu og tryggja að niðurstöður rannsóknanna séu skráðar á fullnægjandi hátt. 

3.1 Fornleifafræðingar skulu leitast við að fylgjast með nýjungum og þróun í fagi sínu og auka við þekkingu sína eftir föngum.

3.2 Fornleifafræðingar skulu undirbúa sig af kostgæfni fyrir þau verkefni sem þeir taka að sér.

3.3 Fornleifafræðingar skulu ganga úr skugga um að rannsóknarlýsing, skráningaraðferð og áætlun um sýnatöku séu fullnægjandi áður en rannsókn er hafin.

3.4 Fornleifafræðingar skulu ganga þannig frá rannsóknarskýrslum sínum að þær séu bæði skýrar og aðgengilegar.

3.5 Fornleifafræðingar skulu gæta þess að gögn, þar á meðal munir, sýni og skýrslur, séu tryggilega varðveitt meðan þau eru í þeirra vörslu og fylgjast síðan með því að þeim sé komið fyrir í viðeigandi geymslu, þar sem forvarsla og varðveisluskilyrði eru góð.

3.6 Fornleifafræðingum ber að íhuga hvort verkefni sem þeir vinna að séu líkleg til að hafa skaðleg áhrif á verk annarra fornleifafræðinga. Ef líkur benda til þess, ber þeim að reyna að halda slíkum áhrifum í lágmarki.

GRUNDVALLARREGLA 4

Fornleifafræðingum ber skylda til að ganga frá niðurstöðum rannsókna sinna svo fljótt sem auðið er.

4.1 Fornleifafræðingum ber að hafa samráð og samvinnu við aðra fornleifafræðinga um sameiginleg viðfangsefni. Þeim ber að virða áhuga starfssystkina sinna og rétt þeirra til upplýsinga um minjastaði, rannsóknarsvæði, muni og gögn þar sem viðfangsefni þeirra skarast.

4.2 Fornleifafræðingar skulu ganga frá nákvæmum skýrslum um rannsóknir sínar án óhóflegra tafa og sjá til þess að þær séu aðgengilegar.

4.3 Fornleifafræðingum ber að virða beiðni annarra fornleifafræðinga og námsmanna um upplýsingar um niðurstöður rannsókna eða verkefna, ef það samrýmist rétti þeirra sjálfra til útgáfu á efninu og öðrum skyldum þeirra sem fornleifafræðinga (sjá athugasemdir við 4.3).

4.4 Fornleifafræðingar bera ábyrgð á túlkun og útgáfu gagna sem varða verkefni undir þeirra stjórn. Fornleifafræðingur skal njóta einkaréttar á slíkum gögnum meðan á úrvinnslu stendur. Ef niðurstöður rannsóknar liggja ekki fyrir eða hafa ekki verið birtar 5 árum eftir að vettvangsrannsókninni lauk fellur þessi réttur niður nema ástæður tafanna séu óviðráðanlegar (sjá athugasemdir við 4.4).

4.5 Fornleifafræðingum er skylt að upplýsa almenning um tilgang og niðurstöður rannsókna sinna. Þeim ber að verða við réttmætum óskum um upplýsingar í þessu skyni (sjá athugasemd við 4.5).

4.6 Fornleifafræðingum ber að standa við samninga sem gerðir eru um útgáfu niðurstaðna rannsókna þeirra. Þeir mega ekki gera samninga sem hindra það að þeir geti birt eigin niðurstöður í skýrslum um rannsóknir sínar. Samningar mega heldur ekki fela í sér afsal á rétti til að nýta rannsóknargögnin eftir að verkefninu lýkur (sjá athugasemd við 4.6).

AHUGASEMDIR

Eftirfarandi athugasemdir eru til nánari skýringar á áðurgreindum reglum. Ef í ljós kemur að þörf er frekari skýringa verður aukið við þær síðar.

Regla 1.4

Telji fornleifafræðingur sig ekki ráða við að leysa eitthvert verkefni af hendi sem fyrirhugað er að fela honum ber honum skylda til að gera þeim sem verkefninu úthlutar grein fyrir því. Í slíku tilfelli gæti fornleifafræðingurinn að sjálfsögðu óskað eftir því að honum verði auðveldað verkið, t.d. með því að veita honum ráðgjöf, sjá honum fyrir aðstoðarmanni eða með því að takmarka rannsóknina. Sama á við ef upp koma í miðri rannsókn óvænt vandamál sem fornleifafræðinginn brestur þekkingu eða hæfni til að leysa. Sömuleiðis ber fornleifafræðingi að leita viðeigandi aðstoðar við verkefni sem hann tengist, annaðhvort beint eða sem ráðgjafi.

Regla 2.2

Sérstaklega skal hugað að þessu þegar um er að ræða grunnrannsóknir. Taka ber tillit til hugsanlegs áhuga annarra fornleifafræðinga, hvort sem um er að ræða grunnrannsóknir eða björgunaruppgröft. Í uppgreftri ber t.d. að rannsaka og skrá efri lög af faglegri nákvæmni jafnvel þótt meginmarkmið rannsóknar beinist að neðri lögum svæðisins.

Regla 4.2

Í þessari reglu felst ábending til fornleifafræðinga um að forðast að hefja, taka þátt í eða styðja verkefni sem hafa í för með sér eyðileggingu fornleifa nema að tryggt sé að úrvinnslu og skýrslugerð verði lokið innan hóflegra tímamarka. Ef þess er vænst að niðurstöður rannsóknar feli í sér ný mikilsverð þekkingaratriði eða ef þær leiða til mikilvægrar þróunar kenninga, aðferða eða tækni, ætti að miðla þeim eins fljótt og auðið er til annarra fornleifafræðinga. Þetta má gera bréflega, í fyrirlestrum, með skýrslugjöf á fundum eða bráðabirgðaútgáfu, einkum ef ljóst þykir að endanleg útgáfa rannsóknarniðurstaðna muni dragast verulega.

Regla 4.3

Fornleifafræðingar sem taka við slíkum upplýsingum skulu virða hagsmuni heimildarmannsins og hafa það hugfast að lög um höfundarrétt kunna að eiga við.

Regla 4.4

Ljóst er að gangi fornleifafræðingur úr einu verki í annað kann það að valda vafa um ábyrgð á birtingu rannsóknarniðurstaðna. Það verður að vera skýrt kveðið á um þessa ábyrgð, annað hvort í starfs- eða verksamningi þeim sem liggur verkinu til grundvallar eða með samkomulagi við þann aðila sem átti frumkvæði að því. Það er á ábyrgð fornleifafræðinga, hvort sem þeir eru í stöðu vinnuveitanda eða starfsmanns, að sjá til þess að skýrt samkomulag sé um þetta áður en verk er hafið.

Regla 4.5

Fornleifafræðingar skulu vera reiðubúnir til að veita aðgang að rannsóknarvettvangi þegar vel hentar. Skilyrði slíkra heimsókna eiga að vera samkomulagsatriði milli fornleifafræðings, þess sem fjármagnar rannsóknina, landeiganda og/eða ábúanda. Öryggi á staðnum og ástand rannsóknarvettvangs ræður hér og miklu.

Regla 4.6

Ákvæði þessarar reglu kunna á stundum að virðast stangast á við ákvæði reglu 1.9. Verkkaupi getur með réttu sett skilyrði um að leynd hvíli yfir ákveðnum upplýsingum. Fornleifafræðingur má þó ekki fallast á skilyrði sem fela í sér að fornleifafræðilegri þekkingu og niðurstöðum sé haldið leyndum til langframa.

Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is