Print

Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2005.  Útgáfa 131b.

 

 

Þjóðminjalög

 

2001 nr. 107 31. maí

Tóku gildi 17. júlí 2001, sjá þó 30. gr.

 

I. kafli. Yfirstjórn og skipulag.

 

 • 1. gr. Tilgangur þessara laga er að stuðla að verndun menningarsögulegra minja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.
  • Lögin eiga að tryggja eftir föngum varðveislu menningarsögulegra minja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarsögulegum minjum landsins og greiða fyrir rannsóknum á þeim.
  • Til menningarsögulegra minja teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornleifar og gömul mannvirki, kirkjugripir og minningarmörk, forngripir, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Til slíkra minja geta einnig talist staðir sem tengjast menningarsögu.
  • Þjóðminjar teljast þær minjar er varða menningarsögu Íslendinga sem ákveðið hefur verið að varðveita í Þjóðminjasafni Íslands, í byggðasöfnum eða með friðlýsingu.
  • Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir.
 • 2. gr. Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu. Þjóðminjasafn Íslands, Fornleifavernd ríkisins og fornleifanefnd annast framkvæmd þjóðminjavörslunnar svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Þjóðminjavörður og forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins starfa saman að mörkun stefnu og gerð langtímaáætlunar um þjóðminjavörsluna í heild. 

 

II. kafli. Þjóðminjasafn Íslands og byggðasöfn.

 

  

 • 3. gr. Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar. Það annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar og kynningar þeirra, innan lands og utan. Þjóðminjasafn Íslands er byggðasöfnum og öðrum minjasöfnum til ráðgjafar og stuðlar að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu á sviði þjóðminjavörslunnar.
  • Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Þjóðminjasafns Íslands, þjóðminjavörð, til fimm ára í senn. Skipaður skal maður með sérfræðimenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins og stjórnunarreynslu.
 • 4. gr. Til byggðasafna teljast samkvæmt lögum þessum önnur söfn en Þjóðminjasafn Íslands sem sett hafa verið á stofn í þeim tilgangi sem segir í 5. gr., hlotið hafa viðurkenningu þjóðminjavarðar og uppfylla skilyrði um rekstrarstyrki safna samkvæmt safnalögum.
 • 5. gr. Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar, svo sem forngripi, kirkjugripi, listmuni, nytjahluti, svo og myndir, hljóðritanir og skráðar heimildir um þjóðhætti og kynna þær almenningi, innan lands og utan. Til slíkra minja geta einnig talist hús sem hafa sérstakt gildi að mati þjóðminjavarðar.
  • Hverju byggðasafni ber að leggja áherslu á söfnun og sýningu muna sem telja má einkennandi eða hafa sögulegt gildi fyrir hlutaðeigandi byggðarlag eða landsfjórðung.
  • Þjóðminjasafn Íslands skal stuðla að rannsóknum á minjum um menningarsögu Íslendinga og útgáfu fræðilegra rita um þær.
  • Í Þjóðminjasafni Íslands skulu varðveittir aflagðir kirkjugripir og þeir gripir sem Fornleifavernd ríkisins og forráðamenn kirkna eru sammála um að eigi sé ástæða til að hafa í kirkju lengur. Þó getur þjóðminjavörður í samráði við Fornleifavernd ríkisins falið viðkomandi byggðasafni varðveislu gripanna.

  

III. kafli. Fornleifavernd ríkisins.

 

 • 6. gr. Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins til fimm ára í senn. Þá eina má ráða í embættið sem hafa sérfræðimenntun í fornleifafræði eða minjafræði og hafa reynslu af stjórnunarstörfum.
  • Fornleifavernd ríkisins fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna. Fornleifavernd ríkisins er söfnum og öðrum hlutaðeigandi aðilum til ráðgjafar um varðveislu og kynningu menningarsögulegra minja er heyra undir starfssvið hennar. Fornleifavernd ríkisins hefur eftirlit með öllum fornleifarannsóknum og er hlutaðeigandi aðilum til ráðgjafar um skráningu, rannsóknir og varðveislu fornleifa.
 • 7. gr. Heimilt er að skjóta ákvörðunum Fornleifaverndar ríkisins er varða rétt eða skyldu manna, svo sem ákvörðunum er varða leyfisveitingar og rannsóknir, sbr. 10. gr., stöðvun framkvæmda, sbr. 13. og 14. gr., og leyfisveitingar, sbr. 15. gr., til úrskurðar fornleifanefndar.
  • Menntamálaráðherra skipar fornleifanefnd til fjögurra ára í senn. Félög fornleifafræðinga tilnefna tvo fulltrúa og þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar. Skal a.m.k. einn þeirra vera með próf í fornleifafræði og annar með embættispróf í lögfræði. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
  • Fornleifanefnd fjallar eingöngu um mál sem skotið er til hennar á grundvelli 1. mgr.
  • Menntamálaráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.

  

IV. kafli. Minjasvæði, fornleifar og forngripir.

 

 • 8. gr. Landinu er skipt í minjasvæði eftir ákvæðum í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fengnum tillögum Fornleifaverndar ríkisins. Í Reykjavík fer borgarminjavörður með minjavörslu. Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins ræður aðra minjaverði er hafa umsjón með minjasvæðum samkvæmt nánari ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins. Þeir eru starfsmenn Fornleifaverndar ríkisins.
  • Minjaverðir skulu vera menntaðir fornleifafræðingar eða hafa menntun í menningarsögu. Fornleifavernd ríkisins er heimilt að fela forstöðumanni byggðasafns að gegna hlutverki minjavarðar á viðkomandi minjasvæði samkvæmt sérstökum starfssamningi.
  • Fornleifavernd ríkisins er heimilt að stofna minjaráð á hverju minjasvæði. Minjaráð skulu skipuð forstöðumönnum allra viðurkenndra byggðasafna á svæðinu ásamt minjaverði. Hlutverk þess er að fjalla um fornminjar og varðveislu þeirra í samráði við Fornleifavernd ríkisins.
 • 9. gr. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem:

 

a. búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum;


b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri;


c. gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita;


d. gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra;

 

e. virki og skansar og önnur varnarmannvirki;


f. gamlir þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð;


g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum;

 

h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið;


i. skipsflök eða hlutar úr þeim.


  • Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar, sbr. 11. gr.

 

 • 10. gr. Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.
  • Fornleifavernd ríkisins hefur rétt til að láta rannsaka fornleifar með greftri eða á annan hátt og gera það sem þarf til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en gera skal landeiganda eða ábúanda viðvart um það áður.
 • 11. gr. Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Fornleifavernd ríkisins lætur skrár þessar í té Þjóðminjasafni Íslands.
  • Skylt er að fornleifaskráning fari fram áður en gengið er frá svæðisskipulagi, aðalskipulagi eða deiliskipulagi eða endurskoðun þess og skal sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög standa straum af kostnaði við skráninguna.
  • Fornleifavernd ríkisins ákveður hvaða fornleifar skulu friðlýstar. Friðlýsing getur náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta minjastaðar. Friðlýsa má samfelld svæði, minjasvæði, þar sem fleiri en einn minjastaður telst hafa sérstakt menningarsögulegt gildi. Friðlýsingu fornleifa skal birta í Stjórnartíðindum og staðurinn og ytri mörk hans tilgreind svo nákvæmlega sem unnt er á korti eða á annan hátt. Fornleifavernd ríkisins skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjasvæði séu merkt með sérstökum merkjum. Tilkynna skal landeiganda og ábúanda með sannanlegum hætti um friðlýsinguna. Friðlýsingu fornleifa skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Um stærra svæði skal leita samþykkis landeiganda. Friðlýstar fornleifar skulu færðar á skipulagskort. Fornleifar, sem friðlýstar hafa verið samkvæmt eldri lögum, skulu njóta friðlýsingar áfram.
  • Fornleifavernd ríkisins getur afturkallað friðlýsingu og skal afturköllunin auglýst með sama hætti og friðlýsingin.
 • 12. gr. Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Fornleifavernd ríkisins viðvart. Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal viðkomandi sveitarfélag eða framkvæmdaraðili gera Fornleifavernd ríkisins viðvart með hæfilegum fyrirvara. Fornleifavernd ríkisins ákveður að höfðu samráði við Náttúruvernd ríkisins hvort rannsóknar er þörf, hvort friðlýsa beri viðkomandi stað eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum.
 • 13. gr. Nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fengin er ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins um hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum.
 • 14. gr. Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask, svo sem vegna vegagerðar, veitulagnar, framræslu eða skógræktar, er haggað geti við fornleifum og skal hann þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá því áður en hafist er handa við verkið. Lýst skal nákvæmlega breytingum þeim er af framkvæmd mundi leiða. Fornleifavernd ríkisins ákveður hvort og hvenær framkvæmd megi hefja og með hvaða skilmálum. Við allar meiri háttar framkvæmdir, svo sem vegagerð, virkjanaframkvæmdir, flugvallargerð, veitulagnir og skógrækt, skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum.
  • Kostnaður Fornleifaverndar ríkisins vegna athugunar á fornleifafundi sem gerð er í því augnamiði að staðfesta eðli og umfang fundarins skal greiddur af stofnuninni.
  • Framkvæmdaraðili greiðir kostnað vegna þeirra rannsókna á fornleifum sem Fornleifavernd ríkisins úrskurðar að séu nauðsynlegar vegna athafna hans.
  • Fornleifavernd ríkisins er heimilt að leiðbeina framkvæmdaraðilum um kostnaðaráætlun, útboð og framkvæmd rannsóknarverkefna.
  • Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um efni þessarar greinar.
 • 15. gr. Fornleifavernd ríkisins annast eftirlit með rannsóknum á fornleifum í landinu.
  • Með fornleifarannsókn er átt við hvers kyns jarðrask, sem fram fer í vísindalegum tilgangi og með það að markmiði að rannsaka jarðfastar fornleifar, sem þegar er vitað um eða líklegt er að finnast muni, eða að ganga úr skugga um hvort um þess háttar fornleifar sé að ræða á rannsóknarsvæðinu.
  • Þegar Fornleifavernd ríkisins veitir leyfi til stað- og tímabundinna fornleifarannsókna, sbr. 2. mgr. 6. gr., skal þess gætt að stjórnandi þeirra hafi tilskilda menntun í fornleifafræði. Skal leyfi vera skriflegt hverju sinni og sá sem slíkt leyfi fær hlíta þeim reglum1) sem Fornleifavernd ríkisins setur þar að lútandi, svo sem um skil á rannsóknarskýrslum og birtingu þeirra og um skil á gripum sem finnast við rannsóknina, sbr. 18. gr.
  • Fornleifavernd ríkisins skal taka afstöðu til fram kominna umsókna um rannsóknarleyfi svo fljótt sem við verður komið.
  • Fornleifavernd ríkisins skal leitast við að bjóða út þær fornleifarannsóknir sem hún telur nauðsynlegar á hverjum tíma.

 

1)Rgl. 292/2002.

 

 • 16. gr. Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.
 • 17. gr. Skylt er að viðhalda á kostnað ríkissjóðs friðlýstum fornleifum.
 • 18. gr. Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.
  • Finnandi skal ekki hagga við fundinum nema nauðsynlegt sé að taka hann eða hluta hans þegar til umhirðu með því að ella væri hætta á að munir spilltust eða færu forgörðum. Ákvæði 1. mgr. taka til allra muna sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og einnig til leifa af líkömum manna og dýra sem finnast í fornum haugum, dysjum eða leiðum. Allir munir, sem grein þessi fjallar um, sem og 15. gr., eru eign ríkisins. Skulu þeir varðveittir í Þjóðminjasafni Íslands eða í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Ef upp kemur ágreiningur um hvar varðveita skuli forngripi sker þjóðminjavörður úr.
 • 19. gr. Finnandi forngrips á rétt á greiðslu að mati Fornleifaverndar ríkisins vegna útgjalda sem hann hefur haft vegna fundarins. Nú finnst forngripur úr gulli eða silfri, þar á meðal gullpeningar eða silfurpeningar, og skal þá Fornleifavernd ríkisins meta málmverð hlutarins og leggja ofan á tíu af hundraði. Skal annar helmingur fjárhæðarinnar greiddur finnanda en hinn landeiganda. Útgjöld samkvæmt grein þessari skulu greidd úr ríkissjóði að fengnu samþykki menntamálaráðherra.

 

V. kafli. Kirkjugripir og minningarmörk.

  

 • 20. gr. Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins ákveður í samráði við þjóðminjavörð friðlýsingu og varðveislu kirkjugripa sem varðveittir eru í kirkjum landsins og hann telur friðunarverða vegna sögulegs eða listræns gildis þeirra. Gripir hverrar kirkju sem friðlýstir eru skulu skráðir sérstaklega.
  • Munir, sem á friðlýsingarskrá eru teknir skv. 1. mgr., eru friðhelgir. Óheimilt er að raska þeim eða spilla. Ekki má heldur farga þeim né flytja þá burtu nema með leyfi forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins. Forráðamönnum kirkna ber að vernda skráða kirkjugripi.
 • 21. gr. Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins friðlýsir þá legsteina eða önnur minningarmörk í kirkjugörðum sem hann telur rétt að vernda vegna sögulegs eða listræns gildis þeirra.
  • Halda skal nákvæmar skrár yfir minningarmörk og skulu minningarmörk í hverjum kirkjugarði skráð sérstaklega. Minningarmörk sem tekin eru á friðlýsingarskrá eru friðhelg. Óheimilt er að raska þeim eða spilla. Kirkjugarðsstjórnir annast vernd skráðra minningarmarka svo sem segir í lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993.
 • 22. gr. Fornleifavernd ríkisins heldur skrár skv. 20. og 21. gr. og lætur þær í té sóknarprestum, próföstum og sóknarnefndum sem hlut eiga að máli.
 • 23. gr. Sé kirkja lögð niður skulu gripir hennar renna til Þjóðminjasafns Íslands eða til annarra kirkna að höfðu samráði milli forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins, þjóðminjavarðar og biskups eða prófasts. Gildir þetta jafnt um bændakirkjur sem safnaðarkirkjur. Þjóðminjasafn Íslands skal eiga forkaupsrétt að kirkjugripum í einkaeign ef seldir verða.

 

VI. kafli. Fornleifasjóður.


 • 24. gr. Fornleifasjóður hefur það hlutverk að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornleifum og forngripum. Menntamálaráðherra skipar fornleifasjóði þriggja manna stjórn sem úthlutar úr sjóðnum styrkjum til rannsóknar- og varðveisluverkefna og ber stjórnin ábyrgð á umsýslu sjóðsins. Menntamálaráðherra setur sjóðnum sérstakar úthlutunarreglur.1) Stjórn fornleifasjóðs skal þannig skipuð: Einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera fornleifafræðingur. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi stjórnarmanna.
  • Tekjur sjóðsins eru: 

1. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,


2. önnur framlög.

 

1)Rgl. 73/2004. 

 

VII. kafli. Almenn ákvæði.

 

 • 25. gr. Hver sá sem fyrir fjártjóni verður vegna framkvæmda á ákvæðum IV. kafla laga þessara á rétt á skaðabótum úr ríkissjóði. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar eftir reglum laga um eignarnám.
 • 26. gr. Ekki ber að greiða stimpilgjöld eða þinglýsingargjöld af skjölum sem út eru gefin vegna framkvæmda á lögum þessum.
 • 27. gr. Brot gegn ákvæðum 10.–15. gr., 18. gr., 20. gr. og 21. gr. varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við broti skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
 • 28. gr. Fornleifavernd ríkisins skal a.m.k. árlega birta skrár þær sem stofnuninni ber að færa samkvæmt lögum þessum.
 • 29. gr. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra. Í reglugerðinni skal m.a. kveða nánar á um samstarf Fornleifaverndar ríkisins, Þjóðminjasafns Íslands og húsafriðunarnefndar.
 • 30. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda innan þriggja mánaða frá gildistöku þeirra. …
 • Ákvæði til bráðabirgða. Umboð þjóðminjaráðs og fornleifanefndar samkvæmt lögum nr. 88/1989, með síðari breytingum, fellur niður við gildistöku laganna. Ný fornleifanefnd skal skipuð innan tveggja mánaða frá gildistöku laganna.
  • Leyfi til fornleifarannsókna sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu.
  • Starfandi þjóðminjavörður gegnir embætti sínu í allt að þrjá mánuði frá gildistöku laga þessara eða þar til skipað hefur verið í embætti þjóðminjavarðar, sbr. 3. gr., og forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins, sbr. 6. gr., og skal embætti hans lagt niður frá og með þeim tíma.

Þeir starfsmenn sem eru fastráðnir hjá Þjóðminjasafni Íslands við gildistöku laga þessara skulu halda öllum starfsréttindum sínum óbreyttum, þar með töldum réttindum sem byggjast á starfs- og þjónustualdri annaðhvort hjá Fornleifavernd ríkisins eða hjá Þjóðminjasafni Íslands samkvæmt nánara samkomulagi við forstöðumenn stofnananna. Breyting á starfsstöð starfsmannanna sem lög þessi hafa í för með sér felur því ekki í sér niðurlagningu starfa þeirra í skilningi starfsmannalaga, nr. 70/1996, og gilda þau ákvæði því ekki um þá.

Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is