Viðburðir fornleifaverndar

Þú ert hér:Forsíða»Fréttir

Styrkir úr húsafriðunarsjóði 2013

Þriðjudagur, 12 Mars 2013 15:22

Minjastofnun Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2013

 

Frá og með 1. janúar 2013 tóku gildi ný lög um menningarminjar nr. 80/2012. Með gildistöku þessara laga voru Húsafriðunarnefnd og Fornleifavernd ríkisins sameinaðar í nýja stofnun, Minjastofnun Íslands.

Minjastofnun Íslands úthlutar styrkjum úr húsafriðunarsjóði. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja, sbr. reglur nr. 182/2013. Sjóðurinn veitir styrki til viðhalds og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum. Sjóðnum er einnig heimilt að veita styrki til viðhalds annarra mannvirkja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Sjóðnum ber einnig að stuðla að byggingarsögulegum rannsóknum, þar með talið skráningu húsa og mannvirkja, og miðlun upplýsinga um þær.

Umsóknir eru metnar með tilliti til varðveislugildis, t.d. vegna byggingarlistar, menningarsögu, umhverfis, upprunaleika og tæknilegs ástands ásamt gildis hennar fyrir varðveislu byggingar¬arfleifðarinnar.

Umsóknareyðublað og nánari upplýsingar, m.a. úthlutunarreglur, er að finna á heimasíðu Minjastofnunar Íslands, husafridun.is eða í síma 570 1300. Umsóknarfrestur er til 1. apríl 2013.

Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með að þær framkvæmdir sem hún styrkir séu viðunandi af hendi leystar og í samræmi við innsend gögn. Bent er á leiðbeiningarit Húsafriðunarnefndar og Húsverndarstofu um viðhald og viðgerðir eldri húsa í Minjasafni Reykjavíkur/Árbæjarsafni.

Sjá www.husafridun.is

Starf arkitekts við Minjastofnun Íslands

Föstudagur, 18 Janúar 2013 12:04

Minjastofnun Íslands auglýsir laust til umsóknar starf arkitekts.

Ábyrgð og verksvið:

Arkitekt vinnur að mótun stefnu Minjastofnunar Íslands í húsvernd í samráði við Húsafriðunarnefnd sbr. ákvæði laga nr. 80/2012. Hann veitir umsagnir vegna breytinga og viðhalds húsa sem falla undir lög nr. 80/2012 og fer með umsjón, eftirlit og/eða eftirfylgni framkvæmda vegna húsa sem njóta styrkja úr Húsafriðunarsjóði. Arkitekt veitir einstaklingum og framkvæmdaaðilum ráðgjöf um húsvernd og hefur umsjón með húsaskrá Minjastofnunar Íslands..

Menntunar-  og hæfniskröfur:

Leitað er eftir einstaklingi með háskólaprófi á sviði arkitektúrs/byggingalistar. Reynsla af störfum við byggingasögurlegar rannsóknir, endurbyggingu eldri húsa og minjavernd æskileg. Tölvuþekking og færni til að vinna með gagnagrunna og upplýsingakerfi nauðsynleg. Frumkvæði og sjálfstæði í starfi, öguð vinnubrögð og færni í mannlegum samskiptum skilyrði. Krafa um góða kunnáttu í íslensku, ensku og helst einu Norðurlandamáli, jafnt töluðu sem rituðu máli.

Um er að ræða fullt starf og er æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Um launakjör fer samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Umsókn með ferilskrá sendist Minjastofnun Íslands, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík eigi síðar en 2. febrúar n.k. Upplýsingar veitir Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður ( This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ) í síma  5556630. 

Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem fer með umsýslu fornleifa-og húsverndar, og fer með leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja úr landi í umboði mennta- og menningarmálaráðherra. Minjastofnun Íslands starfar á grundvelli laga nr. 80/2012 og 57/2011.

Sjá auglýsingu á starfatorg.is.

Starf fjármálastjóra við Minjastofnun Íslands

Föstudagur, 18 Janúar 2013 11:48

Minjastofnun Íslands óskar eftir að ráða fjármálastjóra til starfa. Fjármálastjóri heyrir beint undir forstöðumann.

Ábyrgð og verksvið:

Fjármálastjóri ber ábyrgð á að meðferð fjármála fari eftir settum lögum og markmiðum stofnunarinnar. Hann hefur umsjón með fjármálum og samningagerð og samskiptum við Fjársýslu ríkisins. 

Menntunar-  og hæfniskröfur:

Leitað er eftir einstaklingi með háskólaprófi á sviði viðskipta- og/eða rekstrar með marktæka reynslu af rekstri og fjármálastjórn. Þekking á launa- og greiðsluumhverfi stjórnsýslunnar kostur. Stjórnunarreynsla og hæfni í mannlegum samskiptum áskilin. Frumkvæði og sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð nauðsynleg. Óskað er færni í íslensku, ensku og helst einu Norðurlandamáli, jafnt töluðu sem rituðu máli.

Um er að ræða fullt starf og er æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Um launakjör fer samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Umsókn með ferilskrá sendist Minjastofnun Íslands, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík eigi síðar en 2. febrúar n.k. Upplýsingar veitir Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður ( This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ) í síma  5556630. 

Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem fer með umsýslu fornleifa-og húsverndar, og fer með leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja úr landi í umboði mennta- og menningarmálaráðherra. Minjastofnun Íslands starfar á grundvelli laga nr. 80/2012 og 57/2011.

Sjá auglýsingu á starfatorgi.is.

Stöngin inn

Þriðjudagur, 13 Nóvember 2012 12:18

„Stöngin inn“ heitir tillagan sem sigraði í Hugmyndasamkeppninni um Stöng í Þjórsárdal

 

Fornleifavernd ríkisins, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu og Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafa á undanförnum árum verið í samvinnu um að bæta aðgengi að minjum í Þjórsárdal og miðlun upplýsinga um þær. Árið 2012 fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða hjá Ferðamálastofu, sem gerði þeim kleift að efna til almennrar hugmyndasamkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um tillögur að hönnun ásýndar og umhverfis fornleifar við Stöng í Þjórsárdal. Auglýst var eftir tillögum í byrjun júlí og bárust 13 mjög áhugaverðar og fjölbreyttar hugmyndir.

 

Meðal meginmarkmiða verkefnisins voru að færa rústir Stangar í upprunalegt horf og sýna þær fornleifar sem í ljós komu við uppgröftinn 1939. Að reisa yfirbyggingu til að verja fornleifarnar gegn veðrun, vindi og að hönnunin taki mið af því að þetta sé staður þar sem fólk kemur og skoðar fornleifar og nýtur umhverfisins og kyrrðarinnar.

 

Það má segja að um tímamóta verkefni sé að ræða, þar sem hér er minjastaður í fyrsta sinn hannaður heildrænt með hliðsjón af umhverfisþáttum og með það í huga að gera hann aðgengilegan og áhugaverðan fyrir almenning. Áhugi er fyrir að gera sem flestar af fornleifunum í dalnum aðgengilegar fyrir ferðamenn á næstu árum. Markmiðið er einnig að nýta megi lausnina sem tillögu að því hvernig megi vinna að svipuðum verkefnum í framtíðinni á öðrum minjastöðum á Íslandi.

 

Þau Karl Kvaran arkitekt og skipulagsfræðingur og Sahar Ghaderi arkitekt frá Íran urðu hlutskörpust, en þau hafa mest unnið á meginlandi Evrópu, aðallega í Frakklandi. Hún sérhæfir sig einmitt í arkitektúr og fornminjum. Timburpallur verður reistur yfir gamla bæinn að Stöng og birtan gegnum veggina á hliðunum vísar í ljóstýrur í rökkvuðum hýbýlum fyrri tíma. Í dómnefndaráliti segir meðal annars „Tillagan er afgerandi og sterk en hefur um leið látlaust yfirbragð og gefur góð fyrirheit um heilsteypta umgjörð um hinar merku minjar að Stöng“.

 

Önnur verðlaun, 900 þús.kr. hlutu Laufey Björg Sigurðardóttir og Eva Sigvaldadóttir í Osló. Þriðju verðlaun, 600 þús.kr. hlutu Basalt Arkitektar í Reykjavík.

 

Dómnefndarálitið má nálgast hér að neðan.

Menning og miðlun. Menningararfurinn í þrívídd

Föstudagur, 26 Október 2012 21:44

5. nóvember næstkomandi mun verða haldin ráðstefna um miðlun menningararfsins með áherslu á myndræna framsetningu. Ráðstefnan er öllum opin og hvetjum við alla áhugamenn um miðlun menningararfsins að mæta. 

Embætti forstöðumanns Minjastofnunar Íslands

Þriðjudagur, 09 Október 2012 11:42

Á heimasíðu Mennta- og menningarmálaráðuneytis er nú auglýst eftir umsóknum um stöðu forstöðumanns Minjastofnunar Íslands. Minjastofnun Íslands er ný stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í landinu. Um hlutverk og starfsemi stofnunarinnar vísast nánar til ákvæða laga nr. 80/2012. Samkvæmt lögunum tekur Minjastofnun m.a. við skuldbindingum Húsafriðunarnefndar og Fornleifaverndar ríkisins sem leggjast af frá 1. janúar 2013.

Verndaráætlun fyrir minjar við Skriðuklaustur

Miðvikudagur, 29 Ágúst 2012 11:32

Sunnudaginn 19. ágúst sl. undirrituðu Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins og Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar, verndaráætlun minjastaðarins að Skriðuklaustri,og má sjá hana hér í viðhengi. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnaði síðan aðgengi að minjastaðnum með því að klippa á borða með aðstoð forstöðumanns Fornleifaverndar. Að því loknu var gestum boðið að skoða minjarnar áður en guðþjónusta hófst í gömlu klausturrústunum undir forystu Frú Agnesar Sigurðardóttur biskups Íslands, sr. Láru G. Oddsdóttur og David Tencer prests kaþólska safnaðarins á Austurlandi. Sr. Davíð Baldursson prófastur og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir tóku þátt í guðþjónustunni auk munka, nunna og barna af svæðinu. Örn Magnússon stjórnaði blönduðum kór við athöfnina. Fjöldi manna kom á svæðið, skoðaði minjarnar og var viðstaddur athöfnina í klausturrústunum.

Stöng í Þjórsárdal - hugmyndasamkeppni

Föstudagur, 24 Ágúst 2012 09:57

Fornleifavernd ríkisins í samvinnu við Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Arkitektafélag Íslands efnir í sumar til almennrar hugmyndasamkeppni um tillögur að hönnun ásýndar og umhverfis fornleifa sem eru við Stöng í Þjórsárdal.

Með verkefninu sem hér er kynnt er minjastaður á Íslandi í fyrsta skipti hannaður heildrænt með hliðsjón af umhverfisþáttum og með það í huga að gera hann aðgengilegan og áhugaverðan fyrir almenning. Hér er því um frumkvöðlaverkefni að ræða. Áhugi er fyrir að gera sem flestar af fornleifunum í dalnum aðgengilegar fyrir ferðamenn á næstu árum. Hugsanlegt er að yfirfæra megi hugmyndina að fullu eða að hluta yfir á aðrar fornleifar í dalnum. Markmiðið er að nýta megi lausnina sem tillögu að því hvernig megi vinna að svipuðum verkefnum í framtíðinni á öðrum íslenskum minjastöðum.

Keppnislýsing verður aðgengileg á vef Arkitektafélags Íslands, www.ai.is, á vef Félags íslenskra landslagsarkitekta, www.fila.is og á vef Fornleifaverndar ríkisins, www.fornleifavernd.is, frá og með 12. júlí 2012. Samkeppnisgögn verða afhent, gegn 5.000.- kr. skilagjaldi, frá og með 12. júlí 2012  á skrifstofu Arkitektafélags Íslands, Engjateigi 9, Reykjavík, á milli kl. 09:00 og 13:00 virka daga. Skrifstofan er þó lokuð á tímabilinu frá 16. júlí til 7. ágúst og á því tímabili er hægt að nálgast gögnin með því að hafa samband við trúnaðarmann samkeppninnar í síma 899 6225 eða með tölvupósti á netfangið:  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

 

Tillögum skal skila til trúnaðarmanns, á skrifstofu Arkitekafélags Íslands að Engjateig 9 eigi síðar en 28. september 2012.


Keppnislýsing í PDF

Page 1 of 2

Leita

Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is