„Stöngin inn“ heitir tillagan sem sigraði í Hugmyndasamkeppninni um Stöng í Þjórsárdal
Fornleifavernd ríkisins, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu og Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafa á undanförnum árum verið í samvinnu um að bæta aðgengi að minjum í Þjórsárdal og miðlun upplýsinga um þær. Árið 2012 fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða hjá Ferðamálastofu, sem gerði þeim kleift að efna til almennrar hugmyndasamkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um tillögur að hönnun ásýndar og umhverfis fornleifar við Stöng í Þjórsárdal. Auglýst var eftir tillögum í byrjun júlí og bárust 13 mjög áhugaverðar og fjölbreyttar hugmyndir.
Meðal meginmarkmiða verkefnisins voru að færa rústir Stangar í upprunalegt horf og sýna þær fornleifar sem í ljós komu við uppgröftinn 1939. Að reisa yfirbyggingu til að verja fornleifarnar gegn veðrun, vindi og að hönnunin taki mið af því að þetta sé staður þar sem fólk kemur og skoðar fornleifar og nýtur umhverfisins og kyrrðarinnar.
Það má segja að um tímamóta verkefni sé að ræða, þar sem hér er minjastaður í fyrsta sinn hannaður heildrænt með hliðsjón af umhverfisþáttum og með það í huga að gera hann aðgengilegan og áhugaverðan fyrir almenning. Áhugi er fyrir að gera sem flestar af fornleifunum í dalnum aðgengilegar fyrir ferðamenn á næstu árum. Markmiðið er einnig að nýta megi lausnina sem tillögu að því hvernig megi vinna að svipuðum verkefnum í framtíðinni á öðrum minjastöðum á Íslandi.
Þau Karl Kvaran arkitekt og skipulagsfræðingur og Sahar Ghaderi arkitekt frá Íran urðu hlutskörpust, en þau hafa mest unnið á meginlandi Evrópu, aðallega í Frakklandi. Hún sérhæfir sig einmitt í arkitektúr og fornminjum. Timburpallur verður reistur yfir gamla bæinn að Stöng og birtan gegnum veggina á hliðunum vísar í ljóstýrur í rökkvuðum hýbýlum fyrri tíma. Í dómnefndaráliti segir meðal annars „Tillagan er afgerandi og sterk en hefur um leið látlaust yfirbragð og gefur góð fyrirheit um heilsteypta umgjörð um hinar merku minjar að Stöng“.
Önnur verðlaun, 900 þús.kr. hlutu Laufey Björg Sigurðardóttir og Eva Sigvaldadóttir í Osló. Þriðju verðlaun, 600 þús.kr. hlutu Basalt Arkitektar í Reykjavík.
Dómnefndarálitið má nálgast hér að neðan.
Minjastofnun Íslands - Suðurgötu 39 - 101 Reykjavík - Sími: 555-6630 - Fax: 555-6631 - Kt: 440113-0280 - Tölvupóstur:fornleifavernd(hja)fornleifavernd.is