Bætist Hofsskiltið við fleiri söguskilti í Vatnsdalnum sem sett hafa verið upp við friðlýsta minjastaði og tengdir hafa verið söguslóðinni. Má þar nefna Jökulsstaði, Ljótunnarkinn, Faxabrandsstaði, Nautabú og Þórdísarholt. Hefur á sumum þeirra farið fram fornleifakönnun til að rannsaka eðli og aldur minjanna sem um ræðir. Niðurstöður þeirra rannsókna birtust í grein eftir Þór Hjaltalín minjavörð Norðurlands vestra íMedieval Archaeology, nr. 53 2009. Auk þess að vinna að bættu aðgengi, upplýsingagjöf og merkingu minjastaða í samstarfi við Fornleifavernd hefur félagið gefið út sögukort um svæðið og leiðsögn á dvd diski ásamt fleiru sem lesa má um á heimasíðunni. Skiltin við Borgarvirki og Hof voru unnin upp á nýtt, þ.e. textar og myndefni var endurnýjað. Um útlitshönnun sá Teikn á lofti á Akureyri.