Minjar undir malbiki. Fornleifaskráning í þéttbýli
Mikill vöxtur hefur verið í fornleifaskráningu á Íslandi á undanförnum árum þó einkum á dreifbýlum svæðum í landinu. Þegar er litið til stöðu þessara mála í þéttbýli er nokkuð annað upp á teningnum. Yfirsýn minjaverndaryfirvalda yfir fornleifar á slíkum stöðum oft á tíðum ærið takmörkuð af ýmsum orsökum. Meðal annars henta hefðbundnar aðferðir fornleifaskráningar illa við skráningu minja í þéttbýli þar sem þær hafa einkum þróast út frá aðstæðum í dreifbýli þar sem sýnileiki minja er mun meiri enn á þéttbýlistöðu og aðgengi að heimildamönnum umtalsvert betra.
Í erindinu verður greint frá skráningu sem gerð var á gömlum bæjarstæðum í Reykjavík í þeim tilgangi að prófa aðferðir sem talið var að gætu hentað betur aðstæðum í þéttbýli en hefðbundnar skráningaraðferðir. Grundvallarhugmyndin á bak við aðferðafræðina er sú að þótt erfitt sé að staðsetja einstakar fornleifar í þéttbýli þá sé samt sem áður hægt að áætla umfang þeirrar minjaheildar sem þær tilheyra og þannig skilgreina hættusvæði þar sem líkur eru á að minjar geti leynst í jörðu. Byggir það m.a á reynslu af fornleifaskráningu í dreifbýli sem hefur sýnt að flestar minjar er að finna í næsta nágrenni bæjarstæða, þ.e í gömlu heimatúnunum og því var talið að með því að skilgreina tún, utanum bæjarstæði Reykjavíkur, væri hægt að ná utanum stórt hlutfall landbúnaðarminja í borgarlandinu. Einnig var reynt að leggja mat á ástand bæjarstæðanna út frá þeirri röskun sem sýnileg er á yfirborði eða þekkt er úr heimildum og verður jafnframt greint frá niðurstöðum þeirrar úttektar.
Eftir fyrirlesturinn verður opið fyrir spurningar og umræður.
Fyrirlesturinn er öllum er opinn og er vonandi að sem flestir sjái sér fært að mæta.